Múlnum smeygt á órólegu deildina

Múllinn klár fyrir köttinnRíkisstjórnin er engu lík. Þegar hún liggur löskuð, máttlítil og vanmegna, dettur henni ekki í hug að lækna meinsemdina. Hún fer í fegrunaraðgerð. Hún er eins og illa haldinn sjúklingur sem sér það helst til ráða að leita til lýtalæknis til að hressa upp á útlitið í stað þess að grafast fyrir um meinsemdina.

Ráðherraskiptin í dag voru tilraun til fegrunaraðgerðar. Með nýju fólki er verið að reyna að auka ferskleikann, sem veitti svo sem ekki af. Það breytir hins vegar engu um stöðu stjórnarinnar. Hún verður jafn hrakleg sem fyrr.

Menn spyrja hvort nú sé búið að styrkja stöðu uppreisnaraflanna úr VG, með því að einn úr þeirra hópi setjist til viðbótar við ríkisstjórnarborðið. Hvort Steingrímur J. hafi einfaldlega gefist upp fyrir ofureflinu og orðið að láta það yfir sig ganga að Ögmundur Jónasson færi inn í ríkisstjórnina.

Svo vel vill til að einn þeirra sem gleggst getur frá því greint, hefur upplýst okkur um hver tilgangurinn hafi verið með ráðherrakaplinum að þessu leyti.

Álfheiður Ingadóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra sagði frá því, sem hér má lesa um og heyra, að markmiðið með þessum tilfæringum hefði einfaldlega verið að tryggja stuðning meirihluta Alþingis við samþykkt fjárlaga. Þetta eru ekki lítil tíðindi. Hvað er ráðherrann fyrrverandi að segja okkur?

Jú. Að í fyrsta lagi hafi ekki verið meirihluti fyrir því fjárlagafrumvarpi sem nú er í prófarkalestri og verður lagt fyrir Alþingi eftir tæpan mánuð. Ríkisstjórn sem ekki hefur meirihluta fyrir fjárlagafrumvarpinu sínu á bara eitt eftir; að segja af sér. Það er það sem beið hennar, samkvæmt þessu að öllu óbreyttu, eftir næstu mánaðarmót.

En við þessu var séð. Hrókeringarnar höfðu þann tilgang að koma í veg fyrir slíkt. Með því að skipa Ögmundi Jónassyni til sætis við ráðherraborðið í húsi Stjórnarráðsins við Lækjatorg, var stuðningurinn tryggður. Flóknara var það ekki.

Stjórnmálaskýring Álfheiðar Ingadóttur segir alla söguna, alla sólarsöguna. Það er búið að smeygja múlnum á órólegu deildina í VG. Og þannig mýld mún hún ganga í takt, með samræmdu göngulagi fornu !




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband