Af hverju minntust þau ekki þá á Icesave?

icesaveStjórnarliðar grípa til gamalkunnugra ráða til þess að útskýra að ekkert miðar við uppbyggingu efnahagslífs okkar. Eftir að Hagstofan hafði birt tölur um hagvöxt og landsframleiðslu sl. föstudag, var eins og ráðherrarnir neituðu að horfast í augu við staðreyndirnar. Ástandið er víst gott, sagði forsætisráðherrann í orðaskiptum okkar á Alþingi,.Þið viljið bara ekki sjá það.

Þetta var óskaplega aumkunarvert, en gekk sjáanlega ekki upp. Þess vegna var fundið nýtt ráð. Nú er ekki lengur þrætt fyrir að allt sé í volli og lamasessi í efnahagsmálunum. En blóraböggullinn er fundinn. Nú er sagt að það sé Icesave.

Þetta er skrýtin röksemd í ljósi þess sem fyrr var sagt.

Síðustu vikur hafa stjórnarliðar stritast við að sannfæra okkur landsmenn um að allt sé í himnalagi og á hraðri uppleið, þökk sé stjórnvöldum. Þá var ekkert Icesave að flækjast fyrir.

En þegar staðreyndirnar bera bullið ofurliði, þá er seilst sem fyrr og síðar til Icesave - grýlunnar. Við höfum svo sem séð til þeirra fyrr í þessum dúr.

Svona málflutningur gengur bara ekki upp. Það stendur ekki steinn yfir steini. Þetta er brjóstumkennanlegt fálm. Rökleysa af verstu tagi hjá talsmönnum ríkisstjórnar sem hefur alls staðar þvælst fyrir þegar kemur að uppbyggingu í atvinnumálum.

Það er skýringin á því að það ríkir ekki einasta stöðnun heldur hreinlega aftrurför í efnahags og atvinnumálum í landinu. Vandinn heitir ekki Icesave, vandinn heitir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, jafnt fyrir og eftir andlitslyftingu.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband