Saksóknari hnyklar vöðvana

 

Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari Alþingis í málinu gegn Geir H. Haarde fyrir Landsdómi, heldur áfram að hnykla vöðvana. Nýjasta tiltækið er að opnuð er heimasíða. Það að heimasíðan er opnuð af embætti þessu hefur einn tilgang; og aðeins einn tilgang. Að þjóna markmiði saksóknarans. Hér sem fyrr í þessu máli hefur saksóknari fjárhagslega yfirburði. Tékkheftið sem íslenskir skattborgarar fjármagna, stendur opið saksóknaranum. 

Það er ekki að undra þó fólki ofbjóði þetta.

Hundruða þúsunda króna heimasíða er þess vegna hrein skiptimynt og rekstrarkostnaður upp  á einhverjar upphæðir sem teljast örugglega ekki stórar  í hlutfalli við aðrar kostnaðartölur í herleiðangrinum gegn Geir. H. Haarde. Þær hlaupa á hundruðum milljóna. Enda erum við nú komin með 15 dómara í Landsdómi á hæstaréttardómaralaun. Og síðan heilt embætti nýs saksóknara ofan í kaupið.

Saksóknarinn bauðst til þess, eftir að opinberar umræður hófust,  að ljá verjanda Geirs H. Haarde pláss á síðu sinni fyrir eitthvað efni! En  sjálfur hefur saksóknari aðeins birt þar valið efni; til dæmis ekki bréf verjanda Geirs.

Þessari heimasíðugerð með skjaldarmerki íslenska ríkisins og myndskreytt með skoppandi lækjum, fossum og fjöllum, er ætlað að draga upp þekkilega mynd af saksókn í einhverju óþverralegasta máli íslenskrar stjórnmálasögu, þar sem farin er  slóð sem aldrei hefur áður verið fetuð  í íslenskri stjórnmálabaráttu.

En umfram allt undirstrikar þetta fram með áþreifanlegum hætti aflsmuninn á milli aðila. Saksóknarinn er með heilan ríkissjóð sjálfan á bak við sig. Saksóknarinn lagði á ráðin með dómsmálaráðuneytinu um að breyta leikreglum í miðju ferli en  Geir H. Haarde var ekki skipaður verjandi fyrr en eftir dúk og disk.

En að einu leyti hefur þó Geir sterka stöðu. Það er verið að beita hann órétti í máli sem allt réttlátt fólks fordæmir. Og réttlætið og sannleikurinn sigrar að lokum. Það verður og að leikslokum í þessu máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband