Alvöru umræðu um alvörumál

 

Forsvarsmönnum vefritsins Eyjunnar er svo mikið niðri fyrir í andstöðunni við fiskveiðistjórnarlöggjöfina að þeir hafa kastað af sér yfirbragði fréttamiðilsins og brugðið yfir sig purkunarlausri áróðursskikkjunni. Það er ágætt. Þá þarf ekkert að velkast lengur í vafa. Eyjan fetar slóðina á eftir DV og reynir ekki lengur að dylja nokkurn þess að tilgangur skrifa síðunnar um fiskveiðimál, er boðun  og útbreiðsla tiltekinnar skoðunar; andstöðunnar við fiskveiðistjórnarkerfið.

Þess vegna er ekki reynt að fjalla hlutlægt um upplýsingar um afleiðingar frumvarpa Jóns Bjarnasonar fyrir einstakar byggðir og landssvæði. Þess í stað er ráðist að útvegsmönnum og þeir gerðir tortryggilegir.

Og Egill Helgason starfsmaður síðunnar fylgir svo í kjölfarið og ber sömu bumburnar.

Er það ekki einmitt þess konar málflutningur, sem fordæmdur hefur verið svo mjög í umræðu almennings? Fólk kallar eftir málefnalegri umræðu og beinir því ákalli jafnt til okkar stjórnmálamanna  sem álitsgjafanna og fjölmiðlanna.

Eigum við ekki að reyna að svara því kalli? Þar getum við örugglega mörg okkar litið í eigin barm og sá sem hér stýrir tölvubendli er engin undantekning.

Fiskveiðistjórnarmálin eru dauðans alvöru mál. Þetta eru flókin mál og krefjast þekkingar og yfirvegunar. Frumskilyrðið er þá að menn reyni að ræða efnislega um hlutina, í stað þess að fara í manninn, svo notuð sé samlíking úr fótboltamáli, sem margir hafa notað á undan mér, til þess að lýsa orðræðu af þeim toga, sem hér er gerð að umtalsefni.

Það er einmitt svo háskalegt við þau frumvörp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, að þau eru svo illa ígrunduð. Sést það best á því að ekki er gerð hin minnsta tilraun til þess að meta áhrif þeirra á byggðir, útgerðir, laun starfsfólks eða yfir höfuð nokkuð annað. Enginn veit – og allra síst ríkisstjórnin - hver efnahagslegu áhrifin verða í krónum og aurum fyrir þjóðfélagið og lífskjörin í landinu. Við öllum blasir þó að áhrifin verða neikvæð, fjárfesting í sjávarútvegi mun dragast saman;  nema þar sem til staðar er offjárfesting. Þangað er fjárfestingarhvatningunni beint.

Þegar lagt er af stað með frumvarp þar sem flest er skrifað með öfugum klónum og enginn virðist geta útskýrt, er ekki við góðu að búast. Því miður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband