14.6.2011 | 11:17
Útúrsnúningar í fiskveiðistjórnarumræðu
Reynt hefur verið að snúa út úr afstöðu okkar sjálfstæðismanna til hins svo kallaða minna sjávarútvegsfrumvarps ríkisstjórnarinnar. Útúrsnúningurinn er sá, að afstaða manna til þess máls sé einhver prófsteinn á vilja þeirra til að gera breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.
Ekkert gæti verið fjær sannleikanum. Afstaða manna til hins minna frumvarps segir bara eitt. Það er hvort menn séu tilbúnir að ana út í einhverjar vitleysisbreytingar og vanhugsað flan, sem öllum kemur illa. Sjávarútveginum og þeim sem þar starfa, sjávarbyggðunum og þjóðfélaginu í heild. Því miður var það svo að meirihluti Alþingis breytti fiskveiðistjórnarlögunum með ákaflega vanhugsuðum hætti og án þess að geta sagt okkur hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir þjóðfélagið í heild, né fyrir þá sem sérstaklega eiga við að búa.
Þetta gerði meirihlutinn gegn viðvörunarorðum allra umsagnaraðila. ASÍ, sjómanna, smábátaútgerðanna, LÍÚ, fiskverkenda, fræðimanna; bókstaflega allra sem láta sig málið varða.
Þetta eru auðvitað skammarleg vinnubrögð og til marks um að fátt læra menn af mistökum fortíðarinnar. Þeir sem hæst geipa um mikilvægi nýrra og vandaðra vinnubragða, voru í forystu þess að knýja fram þessar lagabreytingar í sjávarútvegi, án þess að hafa hugmynd um hvert þær leiða.
Það er nefnilega ekki nóg að gaspra í frasakenndum stíl, þegar við erum að fjalla um sjávarútvegsmál. Menn geta kannski leyft sér það þegar um léttvægari mál er að ræða. En ekki þegar við erum að ráðskast með burðarásinn í efnahagslífinu okkar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegn um tíðina staðið fyrir margvíslegum breytingum á fiskveiðistjórnarlögunum. Við höfðum frumkvæði að auðlindagjaldinu, svo dæmi sé tekið. Og í okkar stjórnartíð voru innleiddar margvíslegar byggðalegar aðgerðir innan vébanda fiskveiðistjórnarkerfisins. Þetta er til marks um að flokkurinn hefur einmitt viljað bregðast við afleiðingum fiskveiðistjórnarkerfisins.
Nú er hins vegar verið að veikja grunn fiskveiðistjórnarkerfisins. Gera það síður tækt sem aflvaka hagvaxtar og bættra lífskjara. Það er verið veikja einyrkjana, hamla fjárfestingum nýrra sem gróinna aðila innan greinarinnar og gera hana lítt eftirsóknarverða sem starfsvettvang, sem er stóralvarlegt mál í ljósi þess að hún er víða á landsbyggðinni helsti starfsvettvangur íbúanna.
Það er þessu sem við mótmælum, því þó að vilji manna standi til breytinga á kvótakerfinu, þá réttlætir það ekki að gera einhverja óhugsaða dellu.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook