Sterki Jón fer til útlanda

  

 

Það væri óskaplega gott ef ráðamenn létu svo lítið að eyða fáeinum orðum á fólkið sem í atvinnulífinu starfar og innti það fregna af gangi mála. Kannski gæti það orðið til þess að toga fyrirsvarsmenn þjóðarinnar niður á jörðina, í námunda við veruleikann.

Ég sat í gær fund Samtaka atvinnulífsins um atvinnumál. Skilaboðin frá atvinnulífinu til stjórnvalda voru skýr: Hættið að þvælast fyrir. Reynið að vinna með. Þá næst árangur. Landflótti, atvinnuleysi og vandræði fólks og fyrirtækja er óþolandi ástand og það á að vera  sameiginlegt verkefni okkar að vinna að því að breyta þessu. Hætta sóuninni sem felst í fjandsamlegri stefnu ríkisvaldsins í atvinnumálum og hefja hér sókn til uppbyggingar.

Það er greinilega bæði himinn og haf á milli veruleikans sem við atvinnulífinu blasir og sýndarveruleikans sem ráðherrar eru alltaf að teikna upp fyrir okkur.  Þolinmæði atvinnulífsins er ekki lengur á þrotum.  Hún er þrotin.

Lýsingar stjórnvalda um árangur eru eins og ögrun við almenning í landinu. Fólkið veit betur og lætur auðvitað ekki bjóða sér þá veruleikafirringu sem birtist í orðum ráðherranna þessa dagana. Það á ríkan þátt í þeirri hörku sem nú er að birtast gagnvart stjórnvöldum og stjórnmálamönnum þessi dægrin.

Látum nú vera þó þetta orðskrúð væri notað til heimabrúks, en nú bætist það við að ráðherrar fara um lönd og álfur og hafa yfir þessa þulu. Það er auðvitað átakanlegt að lesa og heyra af frægðarsögunum sem sagðar af meintum árangri, þegar allt hið gagnstæða blasir við hverjum manni sem við býr, hér heima á Fróni.

Við Íslendingar höfum lengi skemmt okkur yfir Jóni sterka, sögupersónunni úr Skugga Sveini, sígildu leikriti eftir þjóðskáldið Matthías  Jochumsson. Öllum var ljóst að rembingssögur Jóns karlsins voru innistæðulausar. Nú er Jón sterki hins vegar lagstur í ferðalög til útlanda, skreyttur ráðherranafnbótum frá Íslandi. Þaðan berast fréttirnar með haustskipunum og framkalla bjálfahroll á Íslandi.

Það hefur að vísu verið sagt að upphefðin komi að utan og kann það að skýra tíðar utanferðir ráðamanna um þessar mundir, í því skyni að segja frægðarsögur af sjálfum sér. En hér heima þekkja menn veruleikann og hann rímar illa við sögurnar sem roggnir menn ofan af Íslandi segja útlendingum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband