Við munum hafna öllum gervilausnum í samgöngumálum

  

 

 

Nú er orðið ljóst að tillaga Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra varðandi vegagerð á Vestfjarðavegi 60 í  Gufudalssveitinni gengur ekki upp. Sú tillaga var auðvitað alltaf andvana fædd og aðeins spurning hvenær ráðherrann og samgönguyfirvöld  áttuðu sig á því. Útför þessarar tillögu fór síðan endanlega fram á mjög fjölsóttum íbúafundií Bjarkarlundi á mánudaginn var og á Patreksfirði á sögulegum og gríðarlega  fjölmennum fundi í gær,  þriðjudag.

Þetta var allt viðblasandi. Það hefur verið reynt ítrekað að fá okkur til þess að fallast á það að  vegur yrði lagður um Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Heimamenn hafa alltaf hafnað því og við sem höfum stutt þá afstöðu höfum aldrei ljáð því máls að leggja veg, sem ekki gerði sitt gagn, yfir fjöll og hálsa þegar aðrir kostir væru til.

Auðvitað væri skynsamlegast að fara svo kallaða B leið, um Þorskafjörðinn vestanverðan og með þverun  Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Sú leið myndi leysa vandann. Það er þarflaust að tala um einhverjar tafir. Sá möguleiki er nefnilega alltaf til staðar að setja um þá leið sérlög, eins og við Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson höfum lagt til, með frumvarpi sem við höfum lagt fram á Alþingi.

Innanríkisráðherra hefur ekki  treyst sér til þess að fylgja þeim ráðum. Því miður. Þá verða menn að skoða líka aðra kosti. Til þess höfum við þrjú ár. Ekki deginum meira. Á næstu þremur árum munu standa yfir vegaframkvæmdir á leiðinni frá Eiði við Vattarfjörð í Kjálkafjörð. Á þeim tíma verðum við að komast til botns í leiðarvali  vegna vegagerðar í Gufudalssveitinni.

Gaumgæfa þarf kostina sem eru í stöðunni. Rannsaka ber jarðgangamöguleikann undir Hjallaháls. Á honum eru annmarkar, eins og ég hef rakið í grein sem hér má lesa. Því þarf líka að skoða A leiðina, sem er þverun frá Reykjanesi að Skálanesi, en einnig aðra kosti með þverun í Þorskafirði. Þessar athuganir eru tímafrekar, kostnaðarsamar og þeim fylgja öllum álitamál. En úr því að stjórnvöld virðast ætla að heykjast á B leiðinni er ekkert annað í stöðunni en að skoða jafnframt aðra kosti.

Stjórnvöld hljóta núna að skynja þann alvöruþunga sem er í kröfu almennings á Vestfjörðum um vegabætur á Vestfjarðavegi 60.

Og það skyldu menn muna að þetta er ekki bara krafa íbúanna í Barðatrandasýslum. Sú krafa er studd af Vestfirðingum öllum og nýtur víðtæks stuðnings almennings í landinu. Svo mikið veit ég af þeim viðbrögðum sem ég hef heyrt frá fólki víðs vegar að af landinu síðustu dægrin.

Nú eiga stjórnvöld næsta leik og það vita þau nú að heimamenn á Vestfjörðum fylgjast vel með því hvernig á þessum málum verður haldið. Vestfirðingar munu nefnilega ekki una neinum gervilausnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband