Þverklofnir stjórnarflokkar þora ekki að mæta örlögum sínum

 

Hvorugur ríkisstjórnarflokkanna treystir sér til þess að mæta örlögum sínum í kosningum. Bæði Samfylking og VG eru klofnin ofan í rót og sjá þann eina kost í stöðunni að hanga á ríkisstjórnarsamstarfinu til þess að fresta því í lengstu lög að til kosninga komi. Það er ein ástæða þess að ríkisstjórnin, - sem allir vita að hefur þrotið örendið, - hangir saman.  Hvorugur flokkanna hefur nokkra burði til þess að ganga til kosninga. Flokkarnir eru þrotnir af kröftum og þverklofnir.Það er óttinn sem knýr stjórnarsamstarfið áfram.

Óttinn Óttinn

Forysta Vinstri grænna hefur orðið viðskila við kjarna flokksins. Hrókeringar í ríkisstjórninni hafa ýtt undir þetta ástand. Flokkurinn varð ekki síst til vegna þess að lykilmenn í vinstri hreyfingunni stóðu á bak við stofnun hans. Menn á borð við Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson eru dæmi um það. Núna hefur forysta flokksins klippt á þessi bönd.

Vandi flokksins birtist í einstökum kjördæmum þar sem lykilmenn hans hafa hreinlega gefist upp á stöðunni í flokknum. Við þessar aðstæður er flokkurinn orðinn fangi aðstæðnanna og kemst í rauninni hvorki lönd né strönd.

Samfylkingin býr síðan við margslungna kreppu. Forystukreppu ekki síst. Allir sjá að formaður flokksins, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er á útleið. Spurningin er bara hvort hún verði sett af í vor eða síðar á árinu. Þetta gerir það að verkum að vald formannsins er að engu orðið. Jóhanna Sigurðardóttir er fyrir vikið nú þegar orðin ófær um að leiða flokkinn. Orð hennar hafa ekki lengur vigt innan hans.

Flokkur sem við slíkar aðstæður býr, er ekki í færum til þess að mæta skapadægrum sínum í kosningum.

Þetta er auðvitað alvarlegt fyrir þessa tvo stjórnmálaflokka. En fyst og fremst er þetta alvarlegt fyrir þjóðina af því að svo illa vill til að þessir flokkar eru í forystu fyrir landsstjórninni. Öllum er vitaskuld ljóst að stjórnarflokkar í tætlum eru ekki líklegir til stórræða, í jákvæðri merkingu þess orðs. En flokkar í þvílíkri stöðu eru hins vegar allt eins líklegir til þess að grípa til örþrifaráða og örvæntingartilburða, sem geta stórskaðað land og þjóð.

Það er þess vegna orðið svo óskaplega brýnt að hið pólitíska uppgjör geti farið fram. Áður en verra hlýst af fyrir hagsmuni þjóðarinnar. Það eru ekki rök gegn hinu pólitíska uppgjöri að menn óttist afleiðingar þess fyrir flokka sína. En það er einmit þessi ótti forystumanna stjórnarflokkanna við kjósendurna, almenning í landinu, sem knýr stjórnarsamstarfið áfram.

 Ábyrgir stjórnmálamenn verða vitaskuld að láta hagsmuni þjóðarinnar ganga fyrir. Ekki einkahagsmuni flokka sinna og alls ekki eigin pólitíska hagsmuni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband