"Breytingar sem gera uppbyggingu að engu"

  

„Það er aðdáunarvert hvernig menn sem hafa staðið fyrir útgerð í Bolungarvík hafa byggt sig upp og borið heill og hag bæjarfélagsins fyrir brjósti. Þeim mun sorglegra finnst manni að við stöndum frammi fyrir mögulegum breytingum sem kunna að gera þessa uppbyggingu að engu,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, í samtali við Fiskifréttir er rætt var við hann um þróun aflaheimilda í Bolungargvík sem fjallað er um í opnugrein hér að framan.

Flotinn í höfn í Bolungarvík 

 Breyting fyrir minni byggðarlög

„Þetta hefur fyrst og fremst gerst fyrir dugnað einstakra manna en auðvitað er það líka þannig að við gerðum á sínum tíma grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem höfðu það að markmiði að efla og bæta samkeppnisstöðu minni byggðarlaga. Það var gert með því að koma krókaaflamarkinu á. Einnig var línuívilnun innleidd en hún skilaði á síðasta ári ígildi aukinna aflaheimilda í Bolungarvík upp á 1.000 tonn. Þetta sýnir að mínu mati að tekist hefur að búa til aðstæður fyrir minni byggðarlög sem eru næst miðunum,“ sagði Einar.

 Fórnarlömb stjórnvalda

Einar vék síðan að áformum ríkisstjórnarinnar og sagði að fyrirhuguð hækkun á veiðigjaldi legðist sérstaklega þungt á þær útgerðir sem hefðu skuldsett sig vegna kvótakaupa. Þá væri ætlunin að skerða línuívilnun um fjórðung, koma í veg fyrir að smábátar gætu leigt aflaheimildir úr stóra kerfinu og auk þess eigi þeir ekki að njóta aukins þorskafla nema að hluta til.

 „Það er ömurlegt til þess að vita að menn sem hafa byggt upp atvinnu í sinni eigin byggð í góðri trú, eins og gerst hefur í mínum heimabæ Bolungarvík, skuli verða sérstök fórnarlömb aðgerða stjórnvalda sem í orði kveðnu er ætlað að bæta hag byggðarlaga“, sagði Einar K. Guðfinnsson.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband