Óskundi af grafarbakkanum

 

Þingstörf hér á landi eru býsna frábrugðin því sem gerist á Norðurlöndunum. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti vekur athygli á því að þingfundir standi til dæmis hér mklu lengur en þar gerist. Þetta má að hluta skýra með þinsköpum, sem gefa færi á lengri umræðum á Íslandi en hjá frændum okkar. En megin ástæðan er auðvitað það hvernig staðið er að undirbúningi þingmála.

2rikisstjornJS-31des11 

Það hefur kastað tólfunum á þessu kjörtímabili. Ríkisstjórnin kýs ætíð átökin og ófriðinn, þó annað sé í boði. Sú ótrúlega staðreynd að ríkisstjórnin kemur með á milli 50 og 60 þingmál inn í þingið á síðasta degi, getur vitaskuld ekki haft í för með sér annað en átök og upplausn, af þeim toga sem við höfum orðið vitni að allt þetta kjörtímabil. Þessi plagsiður sem ríkisstjórnin hefur stundað, að hrúga inn málum sínum á síðasta degi, er helsta orsök þessa leiðinda brags sem á þingstörfunum er.

Það lýsir auðvitað fullkomnu stjórnleysi af hálfu forystu ríkisstjórnarinnar og sleifarlag af versta tagi þegar þetta er svona, ár eftir ár. Og þegar ofan í kaupið bætist þvermóðska og eintrjánungsháttur hinna sömu er ekki von á góðu.

Tökum dæmi af sjávarútvegsfrumvörpunum. Enginn getur véfengt að þau mál komu illa undirbúin inn í þingið. Það sjáum við bara á löggjöfinni sjálfri. Í veiðigjaldalögunum er bókstaflega gert ráð fyrir að þau séu endurskoðuð og verkefnið falið stjórnskipaðri nefnd. Sú vinna hefði vitaskuld átt að fara fram áður en frumvarpið var lagt fram, svo málið kæmi að minnsta kosti fram í almennilegum þinglegum búningi.

Ef ekki þá, hefði málið að minnsta kosti átt að koma svo snemma fram að þingnefnd ætti þess kost að láta vinna slíka vinnu, áður en málið væri afgreitt. Á því gafst ekki kostur, vegna þess að tíminn var svo skammur sem ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu til afgreiðslu málsins.

Atvinnuveganefnd gat sem betur fer þó fengið sérfræðinga til þess að meta frumvarpið. Þeir komu auga á slíkar grundvallarskekkjur, fúsk og þekkingarleysi, að nauðsynlegt reyndist að gera verulegar breytingar og vísa frekari vinnu inn í framtíðina.

Fúsk er aldrei gott við lagasetningu og undirbúning mála. Allra síst þegar um er að ræða stórmál.

En þetta er enn eitt dæmið um að ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnin sín. Hennar tími er auðvitað liðinn þó ástæða sé til að óttast að hún eigi enn eftir að gera meiri óskunda, af grafarbakkanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband