Er fjölgun ferðamanna vandamál?

 

Það var meiri umferð á vegunum þegar ég ók vestur til Bolungarvíkur í gær, en ég hafði gert ráð fyrir. Fyrirfram hafði ég búist við fremur lítilli umferð, þar sem ég ók af stað eftir hádegi á þriðjudegi. En sú varð ekki raunin. Og það gladdi mitt gamla hjarta að sjá hve umferðin var drjúg í Ísafjarðardjúpinu.

Frá Hornströndum 

Þetta bendir til þess að ferðamenn séu komnir á kreik fyrir alvöru og leggi líka leið sína út fyrir hinn svo kallaða hringveg. Annars er hringvegur ekki mikið réttnefni. Utan hans í daglegu tali eru nefnilega heilu landsvæðin á Íslandi, Snæfellsnes, Dalir og Vestfirðir svo dæmi séu tekin.

En þó ferðamönnum fjölgi hratt og örugglega þessi dægrin, skapar það ekki vandamál. Miklu fremur tækifæri. Og engin ástæða er til þess að hafa áhyggjur af stór fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands. Þessi vöxtur ferðaþjónustunnar býr til störf og tekjur og við þurfum á hvoru tveggja að halda. Okkar stóra og dreifbýla land getur vel tekið á móti verulegri aukningu, án þess að bíða skaða af.

Menn spyrja hvort ekki sé ástæða til þess að leggja áherslu á færri ferðamenn en tekjumeiri. Um það má margt ræða. En gleymum því ekki að þrátt fyrir gengislækkunina frá árinu 2008, er Ísland alls ekki ódýrt ferðamannaland. Og efist maður um það, þarf ekki annað en spyrja erlenda ferðamenn sem hingað koma.

Verkefni okkar er ekki að sporna við fjölgun ferðamanna; öðru nær. Við þurfum hins vegar að fá fleiri ferðamenn utan svo kallaðrar háannar. Og þar hefur margt tekist vel til ef við skoðum tölur í sögulegu samhengi.

Enn fremur er nauðsynlegt að dreifa túrismanum betur um landið. Þar reynir líka á uppbyggingu innviða, svo sem vegagerð. Fjölmörg landsvæði sem hafa upp á margt að bjóða gætu auðveldlega tekið við mikilli fjölgun ferðafólks. Það er til dæmis ekki náttúrulögmál að nær allir farþegar skemmtiferðaskipa sem til Reykjavíkur fari bara um hinn gullna þríhyrning. Þessum ferðamönnum mætti beina að öðrum náttúru og sögugersemum. Uppbygging vegar um Uxahryggjaleið mun til dæmis opna alveg nýja möguleika að þessu leytinu.

Og síðan er nauðsynlegt að fara að taka afstöðu til spurninga um þjónustugjaldtöku inn á fjölsótta ferðamannastaði til þess að standa undir kostnaði, svo sem við sjáum víða í öðrum löndum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband