Þau ættu kannski að prófa að þegja

 

Hin hörmulega útreið stjórnarflokkanna í skoðanakönnunum er farin að valda áhyggjum og vangaveltum talsmanna flokkanna, eins og við höfum orðið vitni að síðustu dægrin. Það þarf engan að undra. Skoðanakannanir mæla fylgi flokkanna þannig, að Samfylkingin hefur séð á bak þriðja hverjum kjósanda sinna frá kosningum. Tveir af hverjum þremur kjósendum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, treysta flokknum ekki lengur fyrir atkvæði sínu.

2raduneyti-JS-10-12 Ætli engum á stjórnarheimilinu hafi dottið í hug að vandi stjórnarflokkanna sé heimatilbúinn. Fólkið skynji það sem ríkisstjórnin skilur ekki; að almenningur sé búinn að fá sig fullsaddan af sjálfumgleðinni í fílabeinsturninum.

Og hverjar eru skýringarnar?

Jú. Fólkið skilur ekki og meðtekur ekki afrek okkar, segja talsmennirnir. Þetta höfum við séð í skrifum þingmanna og þetta mátti heyra í Kastljósinu í kvöld, þar sem formannsefni Samfylkingarinnar ræddu saman.

Þetta er svo sem ekkert nýtt. Þetta er endurómur þess sem formenn flokkanna hafa áður sagt, af svipuðum tilefnum, þó vissulega sé staða þeirra lakari nú í skoðanakönnunum en áður.

En ætli þetta sé þannig? Geta talsmenn og forystumenn þessara flokka sagt með sanni að sjónarmið þeirra hafi ekki fengið að njóta sín í opinberri umræðu?

Öðru nær. Ráðherrar eru daglegir gestir í stofum landsmanna í gegn um sjónvarpsfréttirnar. Venjulegur fréttatími Ríkisútvarpsins og sjónvarpsins samanstendur af þremur til fjórum fréttum þar sem ráðherrar eru aðal stjörnurnar. Orð þeirra fá daglega og vængi oft á dag í prentmiðlunum og netmiðlum. Af minnsta tilefni, er boðað til blaðamannafunda ráðherra. Þeir ávarpa okkur landsmenn í gegn um tilkynningar sem sendar eru út til þess að vekja athygli á því sem þeir telja sér til pólitískra tekna.

Og dag hvern sem þingið starfar eiga ráðherrar og þingmenn möguleika á að láta í sér heyra og til þess að skýra sitt mál.

Ofan í kaupið hefur forsætisráðherrann ráðið sér illyrtan blaðafulltrúa, sem skrifar hvern dálksentimetrann af fætur öðrum til þess að bera blak af herrum sínum og frúm og með ófrægingum um þá sem ekki eru taldir þóknanlegir.

Það verður því ekki undan því kvartað að þetta fólk komi ekki sínum málstað á framfæri.  En ekkert dugar. Því meira sem frá þessu fólki heyrist, þeim mun óvinsælla verður það og nýtur minni stuðnings almennings.

Spurningin sem vaknar er því ekki sú hvort fólk fái ekki að kynnast því sem ráðherrar og aðrir talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa fram að færa. Því fer víðs fjarri eins og allir vita. Almenningur heyrir þetta og sér í eins fögrum búningi og frekast er unnt. - En ákveður síðan, að það eigi ekki samleið með ríkisstjórnarflokkunum. Fólk sér í gegn um blekkinguna.

Og hvað er þá til ráða fyrir ríkisstjórnarflokkana?

Ætli engum á stjórnarheimilinu hafi dottið í hug að vandi stjórnarflokkanna sé heimatilbúinn. Fólkið skynji það sem ríkisstjórnin skilur ekki; að almenningur sé búinn að fá sig fullsaddan af sjálfumgleðinni í fílabeinsturninum. Sé orðinn þreyttur og skilningsleysinu og blekkingunum, sem birtist í hvert sinn sem talsmenn stjórnarinnar opna munninn.

Eða hvenær ætli það renni upp fyrir stjórnarherrunum að þeirra vandi er ríkisstjórnin sjálf, stefna hennar, úrræðaleysi, sjálfumgleði og skilningsleysi? Kannski þeir ættu að prófa að þegja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband