Er stríð betri en friður?

 

Síðustu dagar hafa fært okkur heim sanninn um mikilvægi þess að taka upp ný vinnubrögð. Hin miklu og ástæðulausu átök sem hafa staðið yfir um stór mál á Alþingi eru vitnisburður um að þeir sem hafa forystu fyrir landinu hafi teflt þessum málum í svo miklar ógöngur, að enginn getur lengur velkst í vafa. Hér sannast hið fornkveðna að veldur sá er heldur.

2raduneyti-JS-10-12 Ljóst er að ríkisstjórnin taldi sér það henta að halda uppi sem mestum átökum um hvaðeina. Stjórnrskrá, rammaáætlun, sjávarúrvegsmálin, ESB, Icesave og áfram má endalaust telja

Það eru stjórnvöld hverju sinni sem slá tóninn. Og ill var hin fyrsta ganga.

Kjörtímabilið hófst í miklum hefndarhug þeirra sem fengu lýðræðislegt umboð til þess að stjórna landinu. Kjörorðið var fyrst og fremst að jafna um andstæðinginn. Hið makalausa landsdómsmál gegn Geir H. Haarde, er gleggsta dæmið um það og ein dapurlegasta stund íslenskrar stjórnamálasögu frá upphafi heimastjórnar. Þá var farin mikil sneypuför, sem allir þeir sem hlut áttu að óhæfuverkinu, munu hafa mikla skömm af.

Ljóst er að ríkisstjórnin taldi sér það henta að halda uppi sem mestum átökum um hvaðeina. Alveg er sama hvar niður er drepið, alls staðar var hið sama uppi á teningnum. Átakaleiðin var meðvituð. Hún átti að vera einhvers konar uppgjör við pólitíska fjendur. Þess vegna var hvarvetna beitt þeirri aðferð að efna til átaka, til þess að skerpa línur á milli stjórnmálaflokkanna.

Það er hægt að nefna svo sem eina og eina undantekningu frá þessu. Sáttanefndin um sjávarútvegsmálin var gott dæmi um það. En það stóð ekki  lengi. Blekið var ekki  þornað af þeirri niðurstöðu, þegar hafist var handa um að svíkja allt sem þar stóð. Sjávarútvegsmálunum sem öðrum var stefnt inn í átök.

Að vísu fór illa um þá sjóferð. Afrakstur valdabrasks ríkisstjórnarflokkanna fékk svo hraklega útreið í umsögnum allra sem um þau tjáðu sig, að annað eins hefur varla sést. Sérfræðingar vógu frumvörp ríkisstjórnarinnar og fundu léttvæg, en áfram er samt haldið, eins og við sjáum nú síðustu dægrin.

Rammaáætlun er annað mál. Það hafði verið í vönduðu ferli faglegrar vinnu. Á síðust metrunum var það allt eyðilagt. Og tilgangurinn? Jú það þurfti til, svo bjarga mætti lífi ríkisstjórnarinnar.

Og svona  eru dæmin endalaus, ESB, Icesave, nefndu það bara. Nú síðast – og auðvitað alvarlegast – er það stjórnarskráin. Það mál kom ekki inn í þingið fyrr en seint og um síðir nú í haust. Fjöldi sérfræðinga varaði mjög við samþykkt þess. Það var leitað út fyrir landsteinana eftir sérfræðiáliti og allt fór á sömu lund. Enn er þó þybbast við.

Alþingi að störfum Þegar ríkisstjórnin leggur mál inn í þingið lítt undirbúin og í miklum ágreiningi við allt og alla, á stjórnarandstaða engan kost annan en að láta járna við.

Við svona aðstæður á stjórnarandstaða sem vill láta taka sig alvarlega, sem vill vinna mál sín af kostgæfni og með efnislegum hætti, ekki annan kost en að láta járna við. Hversu mjög sem við viljum reyna að ná samstöðu við stjórnvöld um sameiginlega niðurstöðu, er ekki hægt að komast lönd né strönd.

Það eru stjórnvöldin á hverjum tíma sem ráða vinnulaginu. Og þegar við búum við stjórnvöld sem beinlínis kjósa átökin og koma með vanbúin mál inn í þingið, fer sem fer. Það er sorglegt af því að það hefði verið svo hægur vandi að vinna öll þessi stóru mál í miklu samlyndi. En ríkisstjórnin vill það ekki. Hún kýs ófriðinn þó friður sé í boði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband