Hver lítur eftir hagsmunum litlu hluthafanna?

Kauphöll ÍslandsÞeir miklu sviptivindar sem nú ganga yfir íslenskt viðskiptalíf kalla á að menn sýni mikla gætni. Í húfi eru miklir hagsmunir. Hagsmunir þeirra sem eiga í fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði. Gleymum því ekki að umtalsverður hluti sparnaðar margra - svo sem almennings í landinu - er bundinn í þessum félögum. Í annan stað má nefna að geta lífeyrissjóðanna til að standa undir framtíðarskuldbindingum sínum ræðst af árangri á hlutabréfamarkaðnum; umtalsverðir fjármunir þeirra eru nefnilega bundnir í hlutabréfum. Nú reynir líka á trúverðugleika þeirra sem stýra ferðinni í þeim félögum sem eru á hlutabréfamarkaðnum. Og loks er ljóst að þróun hlutabréfanna getur haft áhrif á efnahagslíf okkar almennt.

Meðal annars af framangreindum ástæðum skiptir máli að allar ákvarðanir séu gagnsæjar og verði hafnar yfir alla gagnrýni. Hin venjulegu meðal- Jón og hún meðal-Gunna treysta því að fjármunir sem þau festa í félögum sem lúta eiga agavaldi skipulegs og lögbundins hlutabréfamarkaðar, séu meðhöndlaðir þannig að þau njóti hins sama og þess sem svo kallaðir fagfjárfestar búa við.

Þess vegna þarf að liggja fyrir að verðlagning nýs hlutafjár sé óumdeild og sanngjörn. Það þarf líka að vera óumdeilt þegar tengdir aðilar eru að selja og kaupa hlutabréf sín í millum, í almenningshlutafélögum. Uppgjörsreglur þurfa sömuleiðis að vera þannig að þær mæli eignir, skuldir, tekjur og gjöld með sambærilegum hætti, alltaf, ætíð og alls staðar. Það vakna undireins spurningar þegar verðlagning hlutafjár í slíkum viðskiptum rímar ekki við markaðsverðið

Það var nefnilega heilmikið afrek þegar almennur hlutabréfamarkaður varð að veruleika hér á landi. Það skipti máli fyrir atvinnulífið, það skapaði almenningi ný færi til eignamyndunar, það opnaði nýjar leiðir til fjármögnunar fyrir ýmis fyrirtæki og var auðvitað ástæða  þess að menn gátu lagt af stað með nesti sitt og nýja skó út í heiminn; það sem menn kalla núna útrás.

Traust almennings var þess vegna forsenda þess hversu vel tókst til.

Hver á þá að gæta þessara hagsmuna. Sjálfur lagði ég fram frumvörp sem var ætlað að gæta hagsmuna litlu hluthafanna. Það var gert að gefnu tilefni. Hin gríðarlega valdasamþjöppun í atvinnulífi okkar, stærð fyrirtækjanna og það að þræðir þeirra tvinnast svo vítt um samfélagið gerir það að verkum að við þurfum að gæta trúverðugleikans, gagnsæisins og sanngirninnar núna, betur en nokkru sinni áður




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband