Tími hins þrönga sjónarhorns

ÁramótauppgjörÁramótin eru tími uppgjöra. Ekki er óalgengt að menn séu kvaddir til og þeir beðnir um að segja álit sitt á helstu atburðum líðandi árs. Þetta er oft fróðlegt. Bæði fyrir það sem sagt er og einnig í ljósi þess sem ekki er sagt. Það er kannski til marks um sjálfhverf viðhorf þess sem hér stýrir tölvubendli að athygli mín beindist ekki síst að því sem ekki var sagt. Þögnin getur nefnilega verið ótrúlega upplýsandi.

Sumpart má sjá af áliti manna að minni þeirra nær oft til ný liðinna atburða og því falla atburðir sem gerast fyrr á árinu frekar í gleymskunnar dá. Það skýrir væntanlega sumt, en verður varla sagt um allt. Skrýtið var til dæmis að lesa að í svörum álitsgjafa mátti sjá að ofar voru í sinni þeirra, hinir dramatísku dagar þegar borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík féll, en alþingiskosningarnar í vor og stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hefði þó mátt ætla að alþingiskosningar, lok 12 ára stjórnarsamstarfs og myndun ríkisstjórnar tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna gætu ratað inn í analýsur um minnisstæða atburði. Segja má að í umfjöllunum hafi þessari atburðir verið sem lítil neðanmálsgrein.

Annað vakti líka athygli - og furðu. Það var til dæmis áberandi að í uppgjöri um atvinnulíf og efnahagsmál, var samviskusamlega sneitt hjá því að leita álits allra helstu útflutningsgreinanna. Kastljósinu var nær eingöngu beint að skoðunum úr fjármálageiranum.

Hvergi gat til dæmis að líta viðhorf fólks í sjávarútvegi. Hefði þó mátt ætla að forvitnilegt væri að lesa eða heyra skoðanir manna í þeirri grein sem hefur mátt búa við gríðarlegar sviptingar á nýliðnu ári, sem hafa mun áhrif á framvindu hins nýja árs. Niðurskurður aflaheimilda og sviptingar á gjaldeyrismörkuðum hafa mikil áhrif á þessa burðargrein íslensks atvinnulífs. Það var þó ekki tilefni til hjá nokkrum fjölmiðli að fjalla um það, svo einhverju nemi.

Önnur stór og - og mjög vaxandi útflutningsgrein - stóriðjan, var heldur ekki til umfjöllunar. Var þó árið 2007 stórt ár á þessu sviði. Fjarðarál, stærsta stóriðjuverið okkar var til dæmis gangsett, Kárahnjúkavirkjunarframkvæmdum var nær lokið. Segja má að í fyrra hafi því verið brotið í blað á þessu sviði. Það vakti þó ekki áhuga fjölmiðla.

Þriðja stóra útflutningsgreinin - ferðaþjónustan - sló enn nýtt met á síðasta ári. Þar er vöxtur mikill og næsta stöðugur. Ekki var - með einni undantekningu þó - leitað eftir sjónarmiðum forystufólks úr þessari atvinnugrein.

Þess í stað var umfjöllun um atvinnulíf nær eingöngu bundin við skoðanir forystumanna úr fjármálageiranum og fjárfestingarfyrirtækjum. Árið í fyrra var sannarlega viðburðarríkt á þessu sviði og verðskuldaði því umfjöllun. En finnst engum full vel í lagt ,að kalla eftir viðhorfum fulltrúa nær allra fyrirtækja á þessu sviði, sem ná máli, en skeyta ekki um skoðanir annarra mikilvægra atvinnugreina?




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband