Gleðileg jól - góð bókajól

Himnaríki og helvítiJólahátíðin, hátíð ljóss og friðar hefur liðið hjá í minni fjölskyldu eins og vera ber. Við höfum átt hátíðlegar og yndislegar stundir saman; hist, glaðst, lesið, gert vel við okkur í góðum mat, treyst fjölskylduböndin og notið okkar í lestri góðra bóka. Og síðan gerðum við eitt sem aldrei hefur verið iðkað svo um jól á okkar heimili; við horfðum saman á dvd diska sem við höfðum keypt okkur. Það er góð og afar fjöslylduvæn iðkan.

Nú skal þessi vettvangur nýttur til þess að senda öllum þeim sem þessar línur les innilegar jólaóskir með ósk um farsæld og frið.

Sá prýðilegi siður að lesa góðar bækur hefur verið ágætlega nýttur. Að baki er bókin Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalmann Stefánsson. Hreint mögnuð bók. Sjálfur þykist ég sannfærður um að sögusviðið sé utanvert Ísafjarðardjúpið um og fyrir aldamótin 1900. Þannig er verstöðin Bolungarvíkin sjálf,  en Plássið  í bókinni hlýtur að vera Ísafjörður. Þetta er gríðarlega áhrifarík bók, vel skrifuð og leiðir mann inn í þann harðneskjulega heim sem úræði á opnum, rónum sexæringi var við Íslandsstrendur. Bókin er skáldsaga, en það er greinilegt að höfundur hefur kynnt sér aðstæður þær sem hann skrifar um, afskaplega vel. Hugtök sem hann vitnar til, má lesa um í hinum frábæru ritum Jóhanns Bjarnasonar, Áraskip og Brimgnýr og styrktu mig í þeirri skoðun að sögusviðið sé heimabyggðin mín og nágrenni. Ýmsar lýsingar úr Plássinu má heimfæra á Ísafjörð. Það er þó ekkert aðalatriði og vel má vera að aðrir þykist kenna þar aðrar slóðir. Mestu máli skiptir að hér er á ferðinni athyglisverð og vel skirfuð bók.

Áður hafði ég lesið hina frábæru bók Hrafns Jökulssonar, Þar sem vegurinn endar, sem ég keypti mér strax við útgáfu hennar. Sú bók er sömuleiðis snilldarlega stíluð, skrifuð af mikilli kunnáttu en ekki síst af væntumþykju um þær fögru slóðir Árneshreppinn, sem höfundur ann bersýnilega. Um þá bók verður fjallað betur síðar hér á þessari síðu.

En síðast en ekki síst skal hér getið um stórvirkið hans Engilberts Ingvarssonar vinar míns, Undir Snjáföllum. Þættir um búsetu og mannlíf á Snæfjallaströnd. Um þá bók ritaði ég  á bb.is og einnig á Strandir.is. Þessa bók ætti enginn sá er áhuga hefur á byggðasögu; sérstaklega sögu byggðar við Djúp, að láta framhjá sér fara. Hún er í rauninni algjört afrek og hefur bjargað ómetanlegum upplýsingum frá glatkistunni.

Um þessa bók skrifaði ég í framangreindum miðlum: "Hún er holl lesning okkur nútímafólki sem ekki þekktum þessa tíma, nema af óljósri afspurn. Bókin er verðugur bautasteinn þess mannlífs sem á Snæfjallaströndinni var lifað og nægjanlegt þakklæti verður ekki fært í orð, til Engilberts Ingvarssonar fyrir að varpa ljósi á þessa einstæðu sögu, sem verðskuldar að vera minnst, með svo ágætri bók."

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband