Talað út frá mikilli reynslu

Silfur EgilsÞað var skemmtilegt tilbreyting frá dægurumræðunni að hlusta á þá Ragnar Arnalds og Jón Baldvin Hannibalsson ræða Evrópusambandsmál í Sifri Egils í nú áðan. Einkenni þjóðfélagsumræðunnar þar sem álitsgjafar hafa látið ljós sitt skína í ljósvakamiðlunum er einsleitnin. Ekki vegna þess að þátttakendurnir hafi verið svo sammála; það hafa þeir alls ekki verið. Heldur hitt að sjónarhóllinn er svo fyrirsjáanlegur og svipaður þótt hið pólitíska útsýni hafi verið mismunandi.

Það hefur til dæmis grátlega oft blasað við manni mikil vanþekking á pólitískri sögu og þar með skilningsskortur á því samhengi umræðunnar sem er þó svo nauðsynlegt. Þess vegna var það svo fróðlegt að fá svo reynda menn til þess að tala saman um þau miklu álitamál, Evrópumálin, sem svo vinsælt er til viðfangs í stjórnmálaumræðunni.  Þó að ég segi það hér og segi það enn, að framboðið af slíkri umræðu er almennt meiri en eftirspurnin. (Nú sé ég reyndar að þetta sjónarmið er farið að pirra geðslag manna sem  hafa aðra skoðun en ég!!!)

Jón Baldvin og Ragnar hafa þá sérstöðu að hafa stöðu sinnar vegna verið beinir þátttakendur og gerendur í stjórnmálaumræðunni og ákvarðanatöku sem mestu máli hefur skipt á síðustu áratugum. Sjálfur sat ég með þeim báðum á Alþingi á frumbýlingsárum mínum við Austurvöll. Það var lærdómsríkt. Því þótt ég væri í pólitískri andstöðu við þá báða var mikill lærdómur í því fólgin að vinna með mönnum með svo mikla pólitíska reynslu.

Báðir eru fyrrum flokksformenn. Báðir hafa sopið marga fjöruna í pólitískum skilningi. Ragnar hefur meiri þingreynslu, en pólitísk afskipti Jóns spanna líka langa sögu, en sumpart á ólíkum vettvangi.

Jón er minn gamli lærimeistari, fræddi mig í Menntaskólanum á Ísafirði fyrir margt löngu um furður samtímastjórnmálanna og um hið stóra samhengi við hugmyndir útlendar og innlendar, sem vitandi og óafvitandi ráða nú yfirleitt mestu um gjörðir manna þegar upp er staðið.

Og með Ragnari starfaði ég í hinni ágætu Evrópunefnd forsætisráðherra undir forystu Björns Bjarnasonar dóms og kirkjumálaráðherra. Það var góður tími og þar nýttist ekki síst hin gríðarlega mikla reynsla Ragnars til þess að varpa ljósi á hluti sem ekki blöstu við ella.

Síðan er rétt að minna á - samhengisins vegna  - að við Björn, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Evrópunefndinni skrifuðum undir sameiginlegt álit með fulltrúm VG, þeim Ragnari og Katrínu Jakobsdóttur, þar sem sérstaklega var fjallað um sjávarútvegsmálin, við lok nefndarstarfsins.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband