Barist gegn aðstoð við þegna sína

Hjálparstarfsmenn óvelkomnir í BúrmaBirtingarmyndir mannvonskunnar geta orðið margvíslegar. En það þarf alveg einstakt hugmyndaflug til að ímynda sér annað eins og það sem hefur birst okkur síðustu dægrin frá Burma. Þar er það einfaldlega að gerast að stjórnvöld þessa hræðilega grimmdarríkis leggja sig öll fram um að afstýra því að hrjáðum íbúunum sé veitt aðstoð að loknum hamförum sem þar gengu yfir á dögunum og við höfum heyrt af í fjölmiðlum.

Verra er varla hægt að hugsa sér. Stjórnvöld sem gera sitt til að afstýra því að þegnum þess sé bjargað frá dauða, verða varla nefnd nema hinum hrikalegustu nöfnum.

Mannskepnan getur verið sérkennileg. Og sjálfsagt er innræti landsstjórnendanna alla vega austur þar. En fyrst og fremst er þetta til marks um það þjóðfélag sem þarna hefur verið skapað í aldarfjórðungs harðstjórn herforingjanna. Í hugann kemur síðan nafn Aung San Suu Kyi frelsishetjunnar sem landsmenn kusu til forystu, en hefur verið haldið í stofufangelsi æ síðan. Hún er táknmynd frelsishugsjónar í ríki harðræðisins.

Burma er eitt illræmdasta harðstjórnarríki heims. Ekki er nema ríflega hálft ár síðan að þar átti sér stað hljóðlát bylting, þar sem hinir friðsömu  Búddamunkar voru mjög áberandi.

Nú er þessi barátta gleymd umheiminum. Við sinnum okkar daglegu störfum og hyggjum sjaldan austur þangað eða veltum fyrir okkur örlögum frelsisunnandi fólks þar í landi. Safron byltingin er runnin út í sandinn, en vegna hamfaraveðursins á dögunum fáum við þó aftur innsýn inn í það furðulega ríki harðýðgisstjórnarinnar, sem hvorki getur komið þegnum sínum til bjargar þegar þörf er á, né treystir sér til að greiða hjálparsamtökum eða öðrum þjóðum leið sem koma vilja til aðstoðar þegar neyðin er stærst.

Hið umtalaða alþjóðasamfélag sem stundum er ákallað af minna tilefni er bjargarlítið og afskiptalaust þegar örlög manna í einhverju lokaðasta og versta samfélags heims á í hlut.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband