Glöggt er gests augað

Moody´sÓtrúlega lítið hefur farið fyrir þeim tíðindum að alþjóðlega matsfyrirtækið Moodys hefur staðfest lánshæfismat íslenska ríkisins. Þetta eru góðar og jákvæðar fréttir, sem berast okkur mitt í alvarlegum tíðindum af gríðarlegum alþjóðlegum fjármálavanda. Á sama tíma og bandaríski ríkissjóðurinn - stórskuldugur eins og hann er nú fyrir- axlar þúsundir milljarða, fáum við þá einkunn hjá hinu alþjóðlega matsfyrirtæki að horfur séu stöðugar og fyrra lánshæfismat sé staðfest.

Við þær aðstæður sem við búum núna í hinu alþjóðlega umróti eru þetta mikil og góð tíðindi.

Hitt er ekki síður athyglsivert að sjá hvað matsfyrirtækið segir að öðru leyti um stöðu Íslands.

Veikleikarnir sem nefndir eru, koma ekki á á óvart. Mögulegar ábyrgðir ríkisins vegna hins umsvifamikla alþjóðlega bankakerfis okkar Íslendinga. Lítið opið hagkerfi er viðkvæmara fyrir sveiflum segir Moodys. Og jafnframt að hinn opni frjálsi fjármálamarkaður geri það að verkum að erfiðara sé að beita peningamálastjórn til þess að hamla gegn ójafnvægi þjóðarbúsins.

En hitt er kannski ennþá athyglisverðara að lesa þegar Moodys fer yfir önnur einkenni hagkerfis okkar. Þar eru nefnd fimm atriði sem full ástæða er til að vekja athygli á.

1. Þróað efnahagskerfi og stjórnmálalíf, þar sem verg þjóðarframleiðsla á mann er með því hæsta sem fyrirfinnst í heiminum.

2. Jöfn dreifing lífskjara

3. Heilbrigð ríkisfjármál og lágar skuldir hins opinbera

4. Stjórnmálalegur stöðugleiki til langs tíma og þjóðfélag þar sem sátt ríkir um grundvalllaratriði.

5. Efnahagskerfi sem styðst við æ fjölþættara atvinnulíf.

Allt eru þetta athyglisverðar niðurstöður sem Moodys kemst að. En vegna hinnar pólitísku umræðu er áhugavert að nefna tvennt í þessu samhengi.

Í fyrsta lagi blasir það við Moodys, sem við höfum mörg hver haldið fram, gegn háværum mótmælum nokkurra spekinga, að lífskjör á Íslandi eru jöfn í samanburði við önnur lönd.

Og í annan stað að það er einn af styrkleikum okkar samfélags að efnahagsgrunnurinn hvílir á fleiri stoðum en áður. Uppbygging fjármálaþjónustu, stóriðju, margs konar hátækni og ferðaþjónustu eru gott dæmi um þetta. Ýmsir hafa reynt að gera lítið úr þessu atriði, en hér sannast sem fyrr að stundum er gests augað glöggt.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband