Stöndum vörð um jafnlaunastefnuna

SamiðÞað er ástæða til að rifja upp lykilatriðin í kjaramálastefnunni sem fylgt hefur verið á þessu ári.

Þegar aðilar vinnumarkaðarins settust niður við gerð kjarasamninga fyrr á árinu blöstu augljósar staðreyndir við. Sem sé þær, að ekki yrði mikið til skiptanna, vegna þess einfaldlega að slegið hafði í baksegl þjóðarskútunnar. Menn urðu því að komast að niðurstöðu um hvert beina ætti þeim fjármunum sem ætla mætti að yrðu til skiptanna við samningsborðið. Og niðurstaðan varð skýr.

Menn mótuðu jafnlaunastefnu og ákváðu að beina þessum fjármunum einkum til þeirra sem hefðu lægstu launin. Það þýddi þá að aðrir myndu sætta sig við minni kauphækkanir við þessar aðstæður.

Slíkir samningar voru erfiðir fyrir hluta atvinnulífsins, vegna þess að hlutfallslegur kostnaðarauki kom þungt niður á tilteknum atvinnugreinum. Og augaleið gefur að fyrir launþega sem ekki báru mikið úr býtum úr slíkrum jafnlaunasamningum hefur þessi stefnumótun ekki verið auðveld.

En öllum þessum aðilum til hróss má segja að menn undu þessari stefnumótun og studdu hana. Jafnvel þótt hún þýddi litlar kjarabætur fyrir einstaka starfsstéttir og tæki ekki tillit til menntunar svo dæmi séu tekin.

Nú er full ástæða til að árétta þessa stefnumótun. Hjá ríkinu hafa nú verið gerðir 100 kjarasamningar eða þar um bil þar sem þessi stefnumótun liggur til grundvallar. Það er mjög nauðsynlegt til þess að almennur vinnufriður haldist og launastefnan sé í samræmi við brýn efnahagsmarkmið okkar. Að við höldum áfram á þessari braut hóflegra launahækkana og að tryggt sé að sem mestur hluti mögulegra kjarabóta rati í vasa þeirra sem lökust hafa kjörin.

Einstaka starfsstéttir geta örugglega fært sanngirnisrök fyrir því að lúta ekki jafnlaunastefnunni. Og við heyrum þessi rök mjög þessa dagana. En hversu vel sem þau hljóma, breytir það engu um að við eigum þær skyldur nú að beina mögulegum kjarabótum sem mest til þeirra sem helst þurfa á að halda. Við eigum að standa vörð um jafnlaunastefnuna.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband