Jóhanna kallar Framsóknarflokkinn handavinnu

Jóhanna SigurðardóttirÞað hefur komið á óvart hversu hægt stjórnarmyndunarviðræður Samfylkingar og Vinstri Grænna hafa gengið. Sérstaklega í ljósi þess að nú er orðið ljóst að þreifingar á milli flokkanna áttu sér stað löngu áður. Því var almennt ætlað að þess yrði skammt að bíða eftir að viðræðurnar hófust, að ríkisstjórn yrði að veruleika.

Því trúðu líka talsmenn þessara flokka í viðræðunum. Að minnsta kosti tjáðu þau þjóðinni það í gegn um fjölmiðla. Allt gengur svo vel, engar brekkur framundan, engir finnast ásteytingssteinarnir. Ríkisstjórnin er í burðarliðnum og stutt í fæðingu. - Þetta var tónninn, alveg fram á daginn í gær, að þeim var kippt oná veruleikaplanið.

Nú hefur komið í ljós meðgangan er lengri, fæðingin erfiðari og ekki alveg laust við að gleðibragðið hafi vikið fyrir pirringarvotti.

Í gær sagði Jóhanna Sigurðardóttir, í fimmta sinn á jafn mörgum dögum, að skammt yrði nýrrar ríkisstjórnar að bíða. Nú væri handavinnan ein eftir. En bíðum nú við.

Hver reyndist hún vera þessi handavinna Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar? Svar. Framsóknarflokkurinn eins og hann lagði sig, hvorki meira né minna. Framsóknarflokkurinn er eintóm handavinna, að mati Jóhönnu og Steingríms.

Þegar afrakstur erfiðis VG og Samfylkingar var fyrst borinn á borð Framsóknarflokksins, blöstu við þeim óraunhæfar tillögur; samsuða sem hafði það eitt markmið að halda nýrri stjórn við völd fram að næsta kjördegi.

Það var greinilegt að hlutverk Framsóknarflokksins átti að vera það eitt að gefa nýrri stjórn grið í 100 daga. Flokkurinn átti ekki að hafa neina aðkomu og samþykkja ríkisstjórnarvíxil vinstri flokkanna meira og minna óútfylltan.

Það er ekki að ófyrirsynju að Framsóknarflokkurinn uni ekki svona trakteringum. Þessi tilskipanastíll nýrrar ríkisstjórnar boðar ekki gott  og því ekki að undra  að sá flokkur sem hefur líf stjórnarinnar í hendi sér, láti ekki bjóða sér hvað sem er.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband