Með góðum óskum

LyklaskiptiSteingrímur J. Sigfússon tók við lyklavöldum í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu nú um kvöldmatarleytið. Ég afhenti honum lyklana að ráðuneytinu. Lyklakippan hangir í myndarlegri skeifu, sem er við hæfi í ráðuneyti grundvallaratvinnuveganna.

Steingrímur þekkir til í þessum málaflokkum. Hann var landbúnaðarráðherra á árunum frá haustdögum 1988 og fram að kosningum árið 1991. Á sínum langa þingferli hefur hann einnig látið sjávarútvegsmálin til sín taka.

Annars erum við Steingrímur jafnaldra, báðir fæddir á árinu 1955. Ég tjáði honum þegar ég afhenti honum skeifuskrýdda lyklakippuna, að hann væri nú að setjast að í afar áhugaverðu ráðuneyti þar sem að mörgu sé að hyggja. Fyrir nú utan það hve lánsamur hann verði að fá að vinna með svo hæfu og ágætu starfsfólki í ráðuneytinu þar sem góður starfsandi ríkir og sömuleiðis með þeim ágætu stofnunum sem undir ráðuneytið heyra og með öll því góða fólki sem í sjávarútvegi og landbúnaði starfar og þarf oft að eiga samskipti við ráðuneytið og stofnanir þess.

Sjálfur hef ég átt þar góða tíma, þó margt hafi á stundum verið á fótinn. Það hefur verið ögrandi verkefni að sameina þessi grónu ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar og nú hillir undir að starfsemin verði öll undir einu þaki.

Nýrri ríkisstjórn sem tók við í dag, fylgja góðar óskir. Þó að til hennar hafi verið stofnað með umdeilanlegum hætti og mörgum spurningum um áform hennar sé enn ósvarað vonum við auðvitað að verk hennar verði til farsældar. Það ríður á. Við lifum mikla háskatíma þar sem minnstu mistök geta orðið okkur dýrkeypt. Efnahagsáætlunin sem við unnum með Alþjóðagjaldeyrissjóðunum, byggir á því að við förum að með mikilli gætni og af ráðdeild.

Það er einmitt á þeim sviðum sem ástæða er til efasemda. Í nýju ríkisstjórninni er hópur fólks sem hefur bókstaflega gert út á aukin ríkisútgjöld, þegar fyrir liggur að þjóðfélag okkar þarf að rifa seglin alls staðar. Líka á ríkisfjármálasviðinu. Útgjaldaloforð við þessar aðstæður eru þess vegna mestan part innistæðulaus.

Nú er því brýnt að við veitum ríkisstjórninni málefnalegt aðhald. Það er gríðarlega mikilvægt að menn fari ekki út um víðan völl í eyðslu og loforðasæg. Nú er tími aðgæslu, ekki útgjaldafárs. Við þurfum að vera óþreytandi að minna á það. 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband