12.8.2011 | 10:50
Uppgjafarflaggið reist við hún
Það fór eins og vænta mátti. Ríkisstjórnin dró upp hvíta flaggið og játaði uppgjöf sína varðandi ríkisfjármálin. Yfirlýsingarnar varðandi fjárlögin sýna það svo ekki verður um villst að ríkisstjórnin hefur gefist upp.
Því var spáð, meðal annars á þessari síðu, að aðferðafræði ríkisstjórnarinnar gæti einfaldlega ekki gengið upp. Fyrr eða síðar rækist hún á vegg. Spírallinn sem efnahagslífið er komið í, leiðir bara í eina átt. Niður á við. Þess vegna var ekki við öðru að búast en ríkisstjórnin gæfist upp.
Það vantaði ekki. Fyrirsvarsmenn ríkisstjórnarinnar töluðu um það fyrir fáeinum vikum að það væri ábyrgðarlaust að slá nokkuð undan varðandi fjárlögin. Bæði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Árni Páll Árnason efnahags og viðskiptaráðherra fluttu fyrir því sannfærandi rök að ríkisstjórnin ætti einskis annars úrkosta en að standa í lappirnar. Ella yrðum við kaffærð í skuldum og fjármagnskostnaði, auk þess sem trúverðugleikinn væri veg allrar veraldar.
En þessir herramenn urðu að láta undan.
Inn í þetta spilar auðvitað pólitískur veruleiki, sem gerir ríkisstjórninni það ómögulegt að ráða við verkefni sitt.
Í fyrsta lagi styttist nú til kosninga. Næsta ár, sem er fjárlagaárið sem nú er verið að undirbúa,er síðasta heila árið sem ríkisstjórnin getur setið. Kosningar verða í síðasta lagi á vordögum 2013. Ríkisstjórnin er farin að hyggja að slíku og treystir sér því ekki í aðhaldsaðgerðir.
Svo er stjórnarmeirihlutinn orðinn svo naumur að hver og einn hinna 32 meintu stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar hefur neitunarvald í öllum málum. Það hefur þegar sýnt sig hvernig því neitunarvaldi verður beitt. Þráinn Bertelsson byrjaði og aðrir munu fylgja í kjölfarið ef þeir svo kjósa.
Þegar þetta bætist við efnahagsstefnu sem hefur framkallað samdrátt og stöðnun er verkið vitaskuld vonlaust. Við munum því um sinn búa við ríkisstjórn sem er handónýt og grefur efnahagslífið dýpra ofan í samdráttarpyttinn.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook