Frumvarpið skerðir kvóta Vestfirðinga sérstaklega

Það hefur ekki farið hátt í umræðunni um hin nýju fiskveiðistjórnarfrumvörp, að ætlunin er að skerða mjög verulega og jafnvel afleggja með öllu, þær fiskveiðiheimildir sem nýttar hafa verið til byggðalegra, félagslegra og atvinnulegra úrræða á landsbyggðinni. Þær hafa sannarlega verið umdeildar, en skila vitaskuld tekjum, störfum og umsvifum í þeim byggðalögum sem hafa notið þeirra.

Sjá umfjöllun um þetta fyrirkomulag, HÉR

Í höfn

Engin tilraun er gerð til þess að meta afleiðingar þessa í þeim frumvörpum sem nú hafa verið lögð fram.  Kveðið er á um þetta í bráðabirgðaákvæðum laganna og gert ráð fyrir að þessi skerðing fari síðan í sérstakan leigupott.  Ljóst er að þetta mun  minnka fiskveiðiréttinn í þeim byggðalögum sem hafa notið þessara fiskveiðiheimilda. Enginn veit hins vegar hvert aflaheimildirnar úr leigupottinum fara. Það ræðst af framboði og eftirspurn. Ráðherra hefur að vísu heimild skv. frumvarpinu til þess að byggðatengja þennan leigupott að einhverju marki, en í því felst lítil vissa fyrir byggðirnar sem hingað til hafa fengið aflaheimildir úr byggðaúrræðunum.  Markmið leigupottsins er enda alls ekki neitt byggðalegt. Honum er ætlað allt annað hlutverk, sem er að búa til aðgang fyrir útgerðir að aflaheimildum, óháð því hvar þær eru staðsettar. Og tekjurnar af auðlindagjaldinu  fara mestan part í ríkissjóð.

Ég skoðaði aðeins áhrifin af þessu á Vestfirði.

Alls nema þessar bætur og ívilnanir á Vestfjörðum  núna um 3.624 tonnum. Skerðingin er hins vegar 1.561 tonn, eða um 43%

Hugmyndirnar í frumvarpinu ganga út á eftirfarandi:

·         Línuívilnun verður skert um 25%

·         Byggðakvótar verða skornir niður um helming, eða um 50%

·         Rækju og skelbætur verða aflagðar á þremur árum.

Sú verstöð sem hefur notið lang mests gagns af línuívilnuninni er Bolungarvík. Línuívilnunin hefur í raun aukið kvóta Bolvíkinga um 1.012 tonn. Fjórðungsskerðing veldur því 253 tonna kvótaskerðingu í byggðarlaginu. Alls veldur skerðing línuívilnunar 482 tonna kvótaminnkun á Vestfjörðum.

Byggðakvótinn hefur þýtt 1.241 tonna aukningu á kvótum Vestfirðinga. Þar af hafa 530 tonn komið í hlut Ísafjarðarbæjar. Helmingsskerðing á byggðakvótanum, sem frumvarpið boðar, þýðir að aflaheimildir Vestfirðinga minnka um 622 tonn, þar af um 265 tonn í Ísafjarðarbæ.

Rækju og skelbætur hafa þýtt 452 tonna kvóta fyrir Vestfirði. Þar af nema rækjubæturnar vegna Ísafjarðardjúps  369 tonnum.  Skylt er að geta þess að hluti þessara bóta fer á báta sem eru skráðir utan Vestfjarða.

Í fylgiskjali sem frumvörpunum fylgir, varar Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri og stjórnarformaður  Byggðastofnunar við þessum áformum. Ljóst er að ríkisstjórnin ákvað að hafa þau viðvörunarorð að engu.

Hér fylgja hlekkir inn a frumvörpin, sjá HÉR og HÉR


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband