11.4.2012 | 14:56
Dæmisaga af Orkuveitunni
Áform ríkisstjórnarinnar um sérstaka skattlagningu á sjávarútveg fela í sér að ríkissjóður myndi taka til sín allan hagnað sjávarútvegsfyrirtækjanna og gott betur yrði nýtt kvótafrumvarp að lögum. Samkvæmt forsendum frumvarpsins sjálfs þýða þessar hugmyndir að um það bil helmingur framlegðar sjávarútvegsins rynnu í ríkissjóð. Aðrir hafa nefnt mun hærri tölur. En styðjumst hér við forsendur og tölur ríkisstjórnarinnar.
Það er ljóst mál að jafnvel þó miðað sé við forsendur ríkisstjórnarinnar munu þessi áform hafa í för með sér að fjölmörg fyrirtæki gætu ekki staðið við fjárskuldbindingar sínar, þau kæmust í greiðsluvanda og færu að lokum í þrot.
Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál og verður ekki trúað að höfundar og ábyrgðarmenn frumvarpa ríkisstjórnarinnar hafi áttað sig á afleiðingum þeirra.
Tökum dæmi af fyrirtæki, sem nýtir líka náttúruauðlindir, Orkuveitu Reykjavíkur.
Nýlega skilaði það fyrirtæki, ársuppgjöri fyrir síðasta ár. EBITDA þess fyrirtækis ( framlegðin) var ríflega 21 milljarður króna. Það er gríðarlega góð rekstrarafkoma og gæti einhverjum dottið í hug að hún endurspeglaði einhvers konar auðlindarentu, sem skattleggja mætti með sama hætti.
En er einhver að ræða um það? Er einhver að ræða um að hirða helming hennar, 10 til 11 milljarða í ríkissjóð?
Við vitum svarið. Það gerir ekki nokkur sála; engum dettur það í hug. Menn vita að það hefði niðurdrepandi áhrif á rekstur fyrirtækisins. Fyrirtækið myndi ekki ráða við slíkt og færi brátt í þrot. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja enda að þeim veiti ekki af hverri krónu sem reksturinn skili til þess að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.
Síðan vita auðvitað allir að slík skattlagning myndi bitna á þeim sem kaupa af því orkuna og starfsmönnum þess. Orkuverðið þyrfti að hækka, grípa þyrfti til frekari aðhaldsaðgerða og halda fast í taumana þegar kæmi til dæmis að launamálum starfsfólksins.
Þess vegna dettur engum slíkt í hug. Jafnvel þó rekstrarafkoma án fjármagnsliða sé svona góð. En þegar kemur að sjávarútveginum þá virðist það hins vegar sjálfsagt mál að fara slíka skattlagningarleið. Þá heitir það að færa arðinn til þjóðarinnar.
En auðvitað hefur það áhrif. Fyrirtækin sem skattana bera verða að halda að sér höndum. Mörg þeirra ráða ekki við byrðarnar og fara í þrot. Hin hætta við fjárfestingaráform, draga saman seglin og reyna að halda sjó. Það er ekki æskilegt ástand, þegar þörfin í þjóðfélaginu kallar bókstaflega á meiri umsvif, auknar fjárfestingar og framfarir.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook