Agnes biskup

Það er ánægjulegt til þess að vita hve kjöri Agnesar M. Sigurðardóttur sem biskups hefur verið almennt vel tekið. Það er líka verðskuldað. Agnes verður góður biskup og hefur það til að bera sem prýða má forystumann íslensku þjóðkirkjunnar.

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir

Ég veit það, ég þekki hana. Man fyrst eftir henni á Ísafirði, sem lítilli stúlku ( hún er ári eldri en ég). Síðar kynntist ég þeim systrum, Hólmfríði píanóleikara og henni, þegar við settumst öll í nýstofnaðan Menntaskólann á Ísafirði haustið 1971. Þar kynntist ég heilsteyptri, duglegri manneskju og góðum húmorista, sem þó leit lífið alvarlegum augum, eins og okkur ber að gera.

Og loks var ég í hópi hinna lánsömu íbúa Bolungarvíkur, sem fengum Agnesi sem sóknarprest árið 1994.

Agnes hefur reynst vinsæll prestur og stendur sig vel í öllum kirkjulegum athöfnum. Jafnt á gleðistundum, sem á sorgarstundum og í hefðbundnum kirkjulegum athöfnum. Reynsla hennar sem prófasts mun síðan reynast henni vel.

Við Bolvíkingar munum auðvitað sakna hennar, þegar hún tekur við biskupsdómnum, þann 1. júlí næst komandi. En ég tek líka undir með Elíasi Jónatanssyni bæjarstjóra okkar Bolvíkinga, sem sagði í viðtali við mbl.is í gær og orðaði hygg ég hugsanir okkar bæjarbúa: „Við erum óskaplega stolt af okkar sóknarpresti og okkur finnst alls ekki að við séum að missa hana, heldur munum við deila henni með íslensku þjóðinni.“

Íslenska þjóðkirkjan hefur gengið í gegn um erfiða tíma. Að henni hefur verið óvægilega vegið með oft með ómálefnalegum  og ósanngjörnum hætti. Þjóðkirkjan er samfélagi okkar hins vegar ómetanleg og brýnt að við styðjum við hana sem eina af grunnstoðum samfélags okkar. Hennar er ekki síst þörf núna á þeim upplausnartímum sem við lifum, þegar rótleysið markar þjóðlífið, hatrið og hefnigirnin grefur um sig og umburðarlyndi og fyrirgefning er af svo sorglega skornum skammti.

En til þessa verkefnis þarf nýr biskup góðan stuðning innan úr kirkjunni, frá okkur almennu safnaðarfólki, frá stjórnvöldum og þjóðinni allri.

Ég er viss um að hún Agnes, verður okkur mikilvæg í því að takast á við þjóðfélagsmeinin, sem forystumanneskja þjóðkirkunnar, einnar meginstoðar okkar samfélags.

Ps

Og nú verðum við Bolvíkingar að fara að venja okkur af því að tala um Agnesi prest. Nú förum við brátt að segja eins og öll þjóðin: Agnes biskup.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband