11.5.2012 | 16:54
Köllum spaðann, spaða
Þingsályktunatillaga ríkisstjórnarinnar um sameiningu ráðuneyt var samþykkt í dag, eftir miklar umræður. En hvers vegna er verið að ráðast í uppstokkun á Stjórnarráðinu þegar svo stuttur tími lifir af líftíma ríkisstjórnarinnar?
Við skulum kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Þessi uppstokkun Stjórnarráðsins á uppruna sinn í því að ákveðið var að leggja ráðherrakapal einn heilmikinn nú um síðustu aðventu. Úr ríkisstjórninni voru teknir tveir ráðherrar, þeir Árni Páll Árnason og Jón Bjarnason sem ekki létu viljalaust að stjórn forystumanna ríkisstjórnarinnar.
En það er með ráðherrakapla eins og aðra kapla sem menn leggja; þeir ganga ekki allir upp og þá þurfti að stokka spilin. Og fyrir barðinu varð þá Stjórnarráðið. Þar með hófst þessi uppstokkun ráðuneyta, til þess að ráðherrakapallinn gengi eftir.
Vitaskuld reyndu stjórnarliðar að færa þetta stell sitt allt í hinn fegursta búning. En sannleika málsins þekkja allir. Þessar tilfæringar eiga rót sína rekja til þess sem allir sáu um áramótin, þegar ráðherrakapallinn hafði gengið upp. Þjóðin veit vitaskuld hvað að baki býr.
Í Bretlandi segja þeir; Lets call the spade a spade. Köllum spaðann, spaða. Eða sem er miklu íslenskulegra. Köllum hlutina sína réttu nöfnum. Það á við um þetta mál. Við skulum tala um þessi mál eins og þau voru í raun. Þetta var forsenda þess að hægt væri að leggja ráðherrakapalinn og láta hann ganga upp.
Ráðherrakapallinn og uppstokkun Stjórnarráðsins, er dýrkeyptur afrakstur valdatafls og hrosskaupa. Aðili að því máli, er hinn nýji stuðningsfulltrúi ríkisstjórnarinnar, Hreyfingin, sem gengur til liðs við ríkisstjórnina, þegar ráðherrarnir hóa.
Það er sennilega ekki að ástæðulausu að búið er að innleiða nýtt hugtak í stjórnmálaumræðuna; þríflokkurinn, Samfylkingin, VG og Hreyfingin.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook