Við erum stödd í gamalkunnum vítahring

 

Við virðumst vera að festast inni í gamalkunnugum skrúfgangi; vítahring, eins og það var svo oft kallað. Verðbólgan er ekki á niðurleið og hefur ekki verið hærri frá því í júlí. Gengi krónunnar hefur lækkað mikið frá því í sumar og nú er henni spáð frekari lækkun. Og komið er upp ákall um launahækkanir, til þess að spyrna við kaupmáttarþróun, sem aftur er afleiðing verðbólgu og hærra innflutningsverði vegna lægra gengis krónunnar.

peningar Við erum að festast í gamalkunnugu ástandi. Verðlagshækkanir, stöðnun,gengisfellingar. Þetta kallar ríkisstjórnin árangur

Svona var ástandið einmitt á verðbólguárunum. Víxlverkun launa og verðlags, var það kallað og allir vissu hvað það þýddi. Fyrst hækkaði verðlagið og þá var samið um hærri laun. Það þoldi atvinnulífið ekki, gengið féll og kaupmátturinn skilaði sér ekki. Þá hófst sama hringekjan og síðan koll af kolli.

Það sem er hins vegar svo alvarlegt núna, ofan í þetta allt saman, er að hagkerfið vex sáralítið. Það sem eitthvað mælist í þeim efnum, er að mestu leyti vegna tímabundinnar aukningar á einkaneyslu.

Lækkun gengisbundinna lána vegna ógildingar þeirra fyrir dómstólum, hafði þessi áhrif á einkaneysluna. Einskiptisaðgerð í formi sérstakra vaxtabóta, jók þessa einkaneyslu líka tímabundið. Og áhrif launahækkana sem ekki verða viðvarandi höfðu sömu áhrif.

Nú sjáum við merki um aðra þróun einkaneyslunnar. Mjög dregur úr vexti hennar.  Fjárfesting er alltof lítil. Það er einmitt fjárfesting sem getur skapað hér raunveruleg verðmæti og stækkað kökuna sem til skiptanna er.

Gríðarlegar skuldir ríkissjóðs, sem stjórnvöld hafa engin tök á, skuldir annarra opinberra aðila og viðkvæm staða munu gera það að verkum að gengið mun ekki styrkjast. Enda gerir enginn spáaðila ráð fyrir því. Það mun lita kaupmáttinn í framtíðinni.

Ríkisstjórnin kallar þetta árangur. En almenningur veit betur. Þessi árangur sem fólkið í fílabeinsturninum, ríkisstjórnarliðið, sífrar um, er hvergi finnanlegur nema í kollinum á þeim sjálfum. Hugarburður og blekking á kosningavetri, er lélegt veganesti handa  almenningi, sem veit betur og lætur ekki fífla sig með svona innistæðulausu hjali.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband