1.12.2012 | 17:50
Ríkisstjórnin er nakin eins og keisarinn í ævintýrinu fræga
Þegar fjallað er um skuldastöðu heimilanna og frammistöðu ríkisstjórnarinnar á þeim vettvangi, kemur undir eins upp í hugann fræga ævintýrið hans HC Andersens um Nýju fötin keisarans. Rétt eins og keisarinn í sögu Andersens er ríkisstjórnin berstrípuð þegar metinn er árangur hennar í skuldamálum heimilanna.
Þegar kemur að skuldamálum heimilanna er ljóst orðið að ríkisstjórnin er álíka stödd og keisarinn í ævintýrinu fræga.
Ekki vantar neitt upp á yfirlýsingarnar frá stjórnarliðum um dugnað og afrekin varðandi vanda skuldugra heimila. Frægur er orðin að endemum orðaleppurinn um skjaldborgina sem átti að slá um heimilin. Það voru fyrstu orðin sem féllu frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar, við stjórnarmyndunina.
En hver er árangurinn? Hverjar eru efndirnar? Hver er sannleikur málsins?
Svar við fyrirspurn sem ég lagði fram til atvinnu og nýsköpunarráðherra varpar ljósi á sannleikann í þessu máli.
Meginefni svarsins var að alls hafi skuldir heimilanna lækkað um 200 milljarða króna frá haustdögum 2008. Af þeirri upphæð, stafa um 150 milljarðar frá því að gengisbundin lán voru dæmd ólögleg. Það skýrir sem sagt 75% skuldalækkunarinnar. Þessi lán mátti því ekki innheimta. Það stóð ekki á bak við þau sú upphæð sem tilgreind var í lánapappírunum. Þess vegna voru þau lækkuð alls um 150 milljarða. Flóknara er það nú ekki.
Nú hafa verið í gangi í þrjú ár þær aðgerðir sem í rauninni má kalla hina meintu skjaldborg. Þetta eru leiðir eins og 110% leiðin svo kallaða, sértæk skuldaaðlögun og sitthvað annað. Til þessa verkefnis hefur verið varið milljörðum króna úr ríkissjóði í stjórnsýslu og umsýslukostnað. Árangurinn er að skuldalækkunin nemur 50 milljörðum. Lang stærstur hluti þessarar upphæðar eru lán sem alltaf blasti við að myndu ekki innheimtast af því að upphæðin er umfram matsverð eignanna sem voru að veði.
Þessi skuldalækkun er um 25% heilarupphæðarinnar sem afskrifuð hefur verið af heimilunum. Með öðrum orðum, lítið brot af heildarupphæðinni. Þetta er sem sagt allt afrekið.
Svo voga stjórnarliðar sér að hreykja sér af árangri og taka með í þann reikning, skuldir, sem voru í rauninni aldrei raunverulegar skuldir, heldur ólöglegar upphæðir, sem dómstólar sáu um að lækka. Ríkisstjórnin átti þar engan hlut að máli.
Þess vegna er ríkisstjórnin eins og keisarinn, sem hæddur hefur verið öldum saman fyrir að vera ekk í neinum fötum. Hann var berstrípaður í sögunni hans HC Andersens; rétt eins og ríkisstjórnin er berstípuð þegar kemur að skuldamálum heimilanna.
Í þessum málum eins og svo mörgum öðrum hefur komið í ljós að ríkisstjórnin getur ekkert, en lætur sér duga að hreykja sér af árangri sem hún á engan þátt í. Það er lítilmótlegt en hæfir mjög vel svo lítmótlegum stjórnvöldum.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook