Hráskinnaleikur með húshitunarkostnaðinn

 

Ríkisstjórnin og stjórnarliðar leika núna mikinn hráskinnaleik með húshitunarmálin á hinum svo kölluðu „köldu svæðum“. Núna, kortéri fyrir kosningar, eru lagðar fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið um 175 milljónir króna, til hækkunar á liðnum niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði. Að öðru óbreyttu ætti þetta að vera tilefni til þess að fagna fyrir þann tíunda part landsmanna sem býr við mesta húshitunarkostnaðinn. En þannig er það ekki. Því miður.

olafsvik Ólafsvík. Íbúar þar og annars staðar á svo kölluðum "köldum svæðum", hafa fengið sérstakan reikning frá stjórnarliðum sem svarar tveggja til þriggja mánaða hærri húshitunarkostnaðar.

Skoðum aðeins samhengið.

Á þessu kjörtímabili hafa fjárveitingar til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði lækkað um 530 milljónir króna á föstu verðlagi. Þetta þýðir á mæltu máli; hækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er hæstur fyrir. Lækkun þessa fjárlagaliðar er mun meiri en sem svarar þeirri hagræðingarkröfu sem gerð hefur verið almennt á fjárlögunum.

Nærri lætur að um 30 til 35 þúsund einstaklingar búi við hinn mikla húshitunarkostnað; búi á því sem kallað hefur verið „köld svæði“. Þannig má segja að íbúar köldu svæðanna hafi fengið reikning frá ríkisstjórnarflokkunum fyrir upphæð sem amk. svarar aukreitis kyndingarkostnaði til tveggja eða þriggja mánaða! 

En ekki er nóg með þetta. Við fjárlagaafgreiðsluna var ákveðið að krefja orkufyrirtækin sem þjónusta þessi svæði, RARIK og Orkubú Vestfjarða, um arðgreiðslur upp á 370 milljónir króna á næsta ári. Þetta er meira en helmingi hærri upphæð en nemur viðbótarframlögunum til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar sem nú var ákveðin og stjórnarliðar kunnu sér ekki læti yfir.

Það má því segja að með þessum tveimur ákvörðunum, hækkun niðurgreiðslna og stóraukinni arðgreiðslu, hafi stjórnarflokkarnir ákveðið að taka tvöfalt hærri upphæð af íbúum köldu svæðanna en þeir njóta með viðbót til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði. Svo voga stjórnarliðar sér að hælast um yfir framferði sínu.

4b1ad186b8b868cc15a35a25844213af Í fjárlögunum er sýndarupphæð til lækkunar á húshitunarkostnaði, sem tekin er til baka og tvöfalt það með öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar

Með ákvörðuninni um arðgreiðslur frá RARIK og Orkubúinu, er ríkisvaldið, með tilstyrk þingmanna stjórnarliðsins að taka ákvörðun um að hækka orkuverð á hinum köldu svæðum. Sýndarmennskutillaga um auknar niðurgreiðslur upp á helmingi LÆGRI upphæð, kemur ekki í veg fyrir það. Orkufyrirtækjunum verður nauðugur einn kosturinn að velta þessum aukna kostnaði vegna arðgreiðslnanna út í verðlagið. Hafi þau burði til þess að taka þennan kostnað á sig án þess að það skili sér til viðskiptavina sinna í formi verðhækkana, er það vísbending um að óbreyttu hefðu þau getað lækkað orkuverðið að óbreyttu.

Það er auðvitað gróflega dapurlegt að verða vitni að svona sýndarmennsku. Stjórnarliðar sáu sitt óvænna að sýna einhvern lit, með hærri niðurgreiðslum til húshitunarkostnaðar. Kosningar eru í nánd og staða stjórnarflokkanna er ekki góð. En á sama tíma taka þeir hinir sömu ákvörðun um að hlaða á orkufyrirtækin á landsbyggðinni kostnaði upp á rúmlega helmingi hærri upphæð, sem lendir á herðum almennings og atvinnufyrirtækja.

Þarna er verið að sýna hug sinn í verki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband