Það er skollið á stríð

 

 

Hefði það einhvern tímann getað gerst að forystumenn Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins – forvera Samfylkingar og VG – hefðu farið í opið stríð við verkalýðshreyfinguna?  Auðvitað ekki. Aldrei. Samskiptin voru auðvitað ekki alltaf snurðulaus. En forystumenn þessara flokka litu á þá svo nátengda verkalýðshreyfingunni, að þeir hefðu aldrei komið svo málum fyrir, sem við erum nú að sjá í samskiptum stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar.

ASI Það sýnir hve stjórnvöld eru heillum horfin að þau hafa hrundið af stríði við verkalýðshreyfinguna

Flokksmenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags töluðu um verkalýðsflokkana, þegar þeir ræddu um flokka sína. Á milli þeirra og verkalýðshreyfingarinnar var þráður, sem forystumenn þessara flokka gættu alltaf að slitnaði aldrei. Það má segja að þessi þráður hafi verið eins konar líflína þessara flokka.

En nú eru aðrir tímar og aðrir forystumenn.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa lýst yfir formlegu stríði við verkalýðshreyfingarinnar. Það hefur öllum verið ljóst að fáleikar voru orðnir með stjórnvöldum og verkalýðshreyfingunni. Í gær gekk þetta lengra. Það er hreinlega skollið á stríð.

Samskipti stjórnvalda við hagsmunasamtök, svo ekki sé nú talað um heildarsamtök launþega, byggja auðvitað á trausti. Það er fyrir bí; löngu fyrir bí. Langlundargeð verkalýðshreyfingarinnar er brostið. Svo lengi má nefnilega manninn reyna. Stanslaus svik og ómerkilegheit af hálfu stjórnvalda hafa búið til  slíka gjá  á milli þeirra og verkalýðshreyfingarinnar, að óhugsandi er að hún verði brúuð.  Þess vegna hafa heildarsamtök launafólks einfaldlega gefið ríkisstjórnina upp á bátinn.

Jóhanna Sigurðardóttir Jóihanna Sigurðardóttir hefur engan skilning á því að hún hafi það hlutverk sem forsætisráðherra að fylkja fólki saman. Hún kýs alltaf leið átaka, alls staðar, við alla.

Verkalýðshreyfingin lítur á næstu mánuði sem eins konar biðtíma. Hún horfir til alþingiskosninganna í vor sem uppgjör við kolómögulega ríkisstjórn og tækifæri til nýs upphafs.

Heiftin í garð verkalýðshreyfingarinnar af háflu ríkisstjórnarinnar er látin persónugerast í Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ. Skætingur formanns VG í garð hans í fjölmiðlum í gær gekk fram af flestum.  Þetta var  tilraun ríkisstjórnarforystunnar til þess að láta svo líta út, að átökin standi á milli persónunnar Gylfa Arnbjörnssonar  og ríkisstjórnarinnar. Þó var forseti ASÍ einvörðungu að flytja samdóma skilaboð hundrað manna fundar formanns verkalýðsfélaga um allt land.

 En spuni ráðherranna segir okkur bara hve ríkisstjórnin er heillum horfin, sambandslaus við allan almenning í landinu, en situr skilningsvana í fílabeinsturni sínum í stjórnarráðinu. Í fílabeinsturninum stara ráðherrarnir ofan á nafla sína, líta svo upp og segja fullir aðdáunar; hér er miðja alheimsins.

Nú er hrokinn, yfirlætið og sjálfsblekkingin farin að hefna sín. Í stað þess að fylkja fólki saman á erfiðum tíma, er efnt til stríðs um allt og við allt og alla.

svavarg Svavar Gestsson fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins. Hvenær hefði honum dottið í hug að leggja út opið í stríð við verkalðyðshreyfinguna? Aldrei auðvitað

 

En hvað sem segja má um forvera Samfylkingar og VG – Alþýðuflokk og Alþýðubandalag – þá urðu þeir aldrei svona heillum horfnir, bjuggu aldrei við svona forystumenn sem ekki skynja umhverfi sitt og fóru aldrei í stríð við samtök launafólks í landinu. Þeir skildu nefnilega hvar rætur þeirra lágu.

Núverandi stjórnarflokkar eru hins vegar rótlausir eins og þangið, svo vitnað sé í sjálfan Jóhann Sigurjónsson.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband