27.12.2012 | 20:15
Okkur bíða risavaxin verkefni
Framundan er risavaxið verkefni, sem við erum þess albúin að takast á við. En hvert er okkar svar? Í sem skemmstu máli að skapa aukin verðmæti. Efla atvinnulífið. Gefa því svigrúm og tækifæri. Nýta auðlindirnar okkar til verðmætasköpunar og þar með til starfa. Ljúka skuldauppgjöri heimila og fyritækja. Auka fjárfestingar með því að bæta rekstrarskilyrði atvinnulífsins. Ljúka óvissu sem umlykur okkar helstu atvinnugreinar. Ná raunverulegum tökum á ríkisrekstrinum. Þannig sköpum við ný tækifæri, fleiri störf og bætum lífskjör almennings. Við höfum til þess allar forsendur. Við búum vel að sterkum innviðum og þurfum að nýta þá til þess að efla þjóðfélagið, en drepa það ekki í dróma.
Við þurfum að nýta auðlindirnar okkar til verðmætasköpunar og þar með til að fjölga störfum í landinu
Við verðum að byggja upp traust
En til þess að allt þetta gangi eftir verðum við að byggja upp nýtt traust á milli stjórnvalda, stjórnmálamanna og almennings. Það hefur beðið mikinn hnekki. Athygli vakti á dögunum þegar forseti ASÍ sagði ríkisstjórnina hafa slegið heimsmet í því að svíkja gefin loforð! Það er ekki sagt af tilefnislausu. Það er eins og stjórnvöld áliti það sjálfsagðan hlut að svíkja fyrirheit sín og gildir þá einu hvort þau eru munnleg eða skrifleg, eða af hvaða tagi sem þau eru. Á sama tíma er ráðist að grunnstoðum samfélags okkar með ósanngjörnum og ótrúlegum hætti. Sú meðferð sem stjórnarskráin er að fá þessa daga er örugglega versta dæmið um það og er þó af mýmörgu að taka. Það er því ekki að undra að traust skorti á stjórnmálum dagsins.
Virðum þau grunngildi sem okkur hafa dugað best
Stjórnmálamanna allra býður það erfiða en óhjákvæmilega verkefni að byggja upp að nýju almennt traust í landinu. Þar varðar mestu að virða þau grunngildi sem hafa alltaf dugað best í mannlegum samskiptum. Heiðarleika og virðingu fyrir náunganum. Sá er líka boðskapur kristinnar trúar sem hefur verið okkur sem þjóð, mikilvægasta leiðarljósið í gegn um aldirnar. Og núna þegar friður og ró jólanna færist yfir, gefst okkur öllum, innan sem utan stjórnmálanna, næði til þess að hugleiða þessi gildi.
Megi helgi jólanna færa okkur öllum frið og fögnuð og nýtt ár blessun og farsæld.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook