4.1.2013 | 14:19
Vegið að kirkjunni með blekkingartali
Fúl og önug viðbrögð stjórnarþingmannanna Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og Björns Vals Gíslasonar við fyrirætlan Agnesar M. Sigurðardóttur biskups að boða til landssöfnunar til tækjakaupa fyrir Landsspítalans, hafa vakið verðskuldaða og skiljanlega reiði landsmanna.
Sr. Agnes M. Sigurðardóttir biskup. Viðbrögð tveggja stjórnarþingmanna við fyrirætlun biskups um að hefja landssöfnun í þágu Landsspítalans, hafa vakið hneykslan. En viðbrögð þingmannanna eru í ætt við viðhorf stjórnarmeirihlutans í garð kirkjunnar.
En þurfa þessi makalausu viðbrögð þingmannanna að koma á óvart? Ekki er það svo. Þetta er í ætt við annað, varðandi viðmót og viðhorf stjórnarmeirihlutans á Alþingi í garð kirkjunnar og sem hefur lýst sér í því að mjög hart hefur verið gengið fram gagnvart henni og vegið að fjárhagslegri stöðu hennar.
Nú er látið í veðri vaka að kirkjan sé á framfæri ríkissjóðs og hver króna sem fari í gegn um fjárlögin til kirkjunnar skerði möguleikann á því að standa vel að velferðarmálum. Þetta var í rauninni kjarnininn í máli Björns Vals og Sigríðar Ingibjargar. Þetta er þó alveg fráleitt og í raun fásinna.
Kirkjan fær að sönnu fjármuni í gegn um fjárlögin. En það byggir á tvennu sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir.
Í fyrsta lagi var árið 1997 gerður samningur á milli ríkis og kirkju um að kirkjujarðir rynnu til ríkisins. Það voru gríðarlega mikil verðmæti, sem kirkjan afsalaði sér til ríkisins. Í staðinn varð það að samkomulagi að ríkissjóður greiddi laun starfsmanna kirkjunnar. Það er því ljóst að þessir fjármunir voru gagngjald fyrir jarðir sem kirkjan átti.
Í annan stað eru greidd sóknargjöld. Það eru félagsgjöld okkar sem eru í þjóðkirkjunni og er ætlað að renna til kirkjunnar. Þessi gjöld hafa verið skertnú síðustu árin
Innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson skipaði nefnd til þess að fara ofan í þessi mál. Hún skilaði áliti á þessu ári. Niðurstaða hennar er að kirkjan hafi mátt þola miklu meiri niðurskurð en aðrar stofnanir sem heyra undir innanríkisráðuneytið. Ef kirkjan hefði fengið sams konar niðurskurð og stofnanir innanríkisráðuneytisins að jafnaði, hefði hún átt að fá 2 milljörðum meiri framlög en hún hefur notið á kjörtímabilinu.
Og enn skal minnt á að þessi framlög eru annars vegar gagngjöld fyrir jarðirnar sem kirkjan afsalaði sér til ríkisins og hins vegar félagsgjöld af okkur þjóðkirkjufólki, sem ríkið innheimtir en hefur með einhliða hætti ákveðið að skila ekki til kirkjunnar.
Það er auðvitað fráleitt að ganga svo hart gegn kirkjunni eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Á erfiðleika og háskatímum gegnir kirkjan sérstöku hlutverki sem bakhjarl þjóðarinnar. Það hefur því verið lítmótlegt að vega að henni og fjárhagslegri stöðu hennar líkt og gert hefur verið.
Og það er síðan til háborinnar skammar að áhrifamiklir stjórnarþingmenn tali gegn kirkjunni, með blekkingum og grafa um leið undan trúverðugleika hennar og getu til að láta gott af sér leiða á sviði þar sem þörfin er himinhrópandi.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook