7.4.2013 | 20:18
Það stefnir í hrein vandræði
Það sem er svo alvarlegt í íslensku samfélagi í dag, er hin efnahagslega stöðnun, sem hér ríkir. Verði ekki breyting hér á munu engar úrlausnir í skuldamálum heimilanna duga nokkurn skapaðan hlut. Ef fólk fær ekki vinnu, unga fólkið útskrifast úr skólum og beint inn í atvinnuleysi og lífskjör ekki batna, mun verða áframhaldandi landflótti með afleiðingum sem ekkert okkar vill horfast í augu við.
Stjórnvöld hafa skapað vandann sem við er að glíma í atvinnumálunum. Þau hafa efnt til stóra stríðs við verkalýðshreyfinguna og atvinnulífið
Þegar verðmætasköpunin er svona lítil, verða til svo fá störf að það fullnægir ekki þeirri þörf, sem er til staðar. Ungt fólk sem er að hefja lífsbaráttuna er býsna hreyfanlegt. Búferlaflutningur yfir hafið, til austurs eða vesturs, verður engin hindrun. Dæmin hafa sýnt þetta síðustu misserin.
Það er ískyggilegt að fjárfestingar í atvinnulífinu eru svo litlar að þær vega ekki einu sinni upp á móti því sem úreldist í tækjum og tólum, byggingum og öðru því sem þarf til þess að láta atvinnurekstur ganga. Hver vél í verksmiðju, innrétting í verslun, búnaður í skip, tölvur og tæki; allt á þetta sinn líftíma. Smám saman úreldast þessir hlutir. Þess vegna þarf að huga að endurbótum og viðhaldi og nýjum vélum, húsum og þess háttar.
Sú fjárfesting sem við búum við í dag, er svo lítil að það tekst ekki einu sinni að halda í horfinu. Við erum með lakari hluti í höndunum í heild en við vorum fyrir einu ári síðan.
Á meðan svo er, getum við einskis vænst. Við drögumst aftur úr. Fjárfestingu fylgja umsvif, störf og verðmætasköpun. Með nýrri tækni getum við gert hluti sem áður voru okkur ómögulegir.
Auðvitað þarf þetta ástand ekki að vera svona. Þetta eru mannanna verk. Óvissan vegna sjávarútvegsins gerir það að verkum að þar er ekki fjárfest. Á meðan tileinka útlendir samkeppnisaðilar sér íslenska verkþekkingu og stefna fram úr okkur, með sama áframhaldi. Stóriðja hefur mætt hreinum fjandskap. Ferðaþjónusta sem allir kepptust við að lofsyngja, hefur nú verið sett í óvissu með skattahótunum. Landbúnaður býr við óvissu vegna ESB umsóknar og svo má áfram telja.
Og síðan hafa stjórnvöld staðið í stóru stríði við verkalýðshreyfinguna og launþegasamtökin.
Það er því ekki að undra að staðan er eins og raun ber vitni um. Það verður kosið um þessi mál þann 27. apríl.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook