10.9.2014 | 14:52
Einhverjir mikilvægustu samtímaviðburðir í Evrópu
Alveg fram undir þetta trúðu því fæstir, að sá möguleiki væri fyrir hendi að Bretland myndi klofna. Sú staða er hins vegar komin upp og mat flestra er að helmingslíkur séu núna á því að innan skammst verði Bretland ekki til í núverandi mynd. Hugmyndin um sjálfstætt Skotlands gæti ræst eftir viku; eða öllu heldur að um þetta leyti í næstu viku hefðu Skotar ákveðið að slíta sig ú túr Bretlandi.
Kosningarnar þann 18. september nk. eru því einhver mikilvægasti samtímaviðburðurinn í Evrópu.
United kingdom, Sameinaða konungsríkið er heiti þess þjóðfélags sem samanstendur af Englandi, Wales, Skotlandi og Norður Írlandi. Þetta stolta heiti, Sameinaða konungsdæmið, vísar til upplifunar breska samfélagsins á ríkinu sem eitt sinn var svo stórt, að sagt var að sólin hnigi þar aldrei til viðar; enda teygði það sig um öld og álfur, austan hafs og vestan, í Evrópu, Afríku, Ameríku og Asíu. Nú er öldin þó önnur. En þegar Bretland varð til í núverandi mynd eftir að nýlendutímanum lauk, datt örugglega engum í hug að enn ætti eftir að flísast út úr hinu stolta heimsveldi .
Þetta er gríðarlega mikil tíðindi og geta dregið á eftir sér mikinn dilk. Þetta eru líka á margan hátt mótsagnakennd tíðindi í okkar heimshluta. Því að á sama tíma og þessir atburðir eru að eiga sér stað á Bretlandseyjum, er uppi krafa um ennþá nánara samruna innan Evrópusambandsins, en Bretar hafa verið aðilar að því í um 40 ár.
Sannarlega eru einnig mótsagnir þegar kemur að þróuninni í Evrópu. Þeir sem vilja viðhalda Evrópusambandinu gera sér grein fyrir að forsendan er miklu nánara pólitískt og efnahagslegt samstarf. Flestir gera sér nú ljóst að til þess að evrusamstarfið, - hryggjarstykkið í ESB,- standist - þarf ekki bara samhæfingu á peningamálasviðinu, heldur líka á ríkisfjármálasviðinu. Ákvarðanir sem núna eru teknar af einstökum aðildarríkjum þurfa því að verða miðlægari og þær þarf því að taka utan lögsögu einstakra ríkja; á vettvangi ESB sjálfs. Á sama tíma eykst andstaðan innan Evrópusambandsins við þessa þróun, eins og þingkosningarnar í Evrópusambandinu sýndu í vor.
En þjóðernisvakningin í Skotlandi á þó ekki margt skylt við þjóðernisvakninguna í ríkjum ESB. Flokkarnir sem náðu mestum árangri í ESB ríkjunum á grundvelli andstöðu við evrópusamrunann eru gjörólíkir sjálfstæðissinnunum í Skotlandi. Þeir síðarnefndu eru sannarlega þjóðernissinnaðir. En þeir eru hins vegar alþjóðlegir þjóðernissinnar. Þeir vilja vera í Evrópusambandinu, þeir eru hliðhollir Bandaríkjunum, þeir eru stuðningsmenn NATO og vilja nota breska pundið og hafa Elísabetu englandsdrottningu sem sinn þjóðhöfðingja. Sem sagt gjörólíkir þeim þjóðernissinnum sem nú hafa skapað sér sess í Evrópu, þar með talið í Bretlandi ( UKIP)
En hvað sem því líður þá munu kosningarnar um sjálfstæði Skotlands gjörbreyta Sameinaða konungsdæminu. Allir stjórnmálaflokkar á breska þinginu hafa heitið Skotum auknu sjálfsforræði í eign málum, felli þeir tillöguna um sjálfstæði. Bretland mun því ekki verða samt á eftir. Hvernig sem allt fer verður Bretland kjörbreytt ríki, jafnvel þó svo að Skotland verði ekki sjálfstætt.
Þetta eru því ákaflega mikilvægar kosningar og einhver mikilvægasti atburðurinn í samtímasögu Evrópu. Og fari svo að Sameinaða konungsdæmið breska haldi velli verður það því gjörbreytt. Þegar eru hafnar umræður um að rökrétt verði þá að svipta skoska kjósendur réttinum til þess að hlutast til um innanlandsákvarðanir í Bretlandi að öðru leyti. Hvaða réttlæti er í því, spyrja menn, að skoskir kjósendur hafi annars vegar er rétt til að stjórna stórum málaflokkum í Skotlandi sem aðrir þegnar ríkisins hafi ekki íhlutarrétt um og ráði svo líka málum Englendinga, Walesverja eða íbúa Norður Írlands? Þetta eru skiljanlegar spurningar en varpa einnig ljósi á þá miklu atburði sem verða 18. september nk. Sama á hvorn veginn atkvæðagreiðslan fer.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook