Syrgir, tregar þjóðin öll

Hræðilegt sjóslys í mynni Ísafjarðardjúps er sorglegra en orð fá lýst. Tveir dugmiklir og hæfir ísfirskir sjómenn létust við störf sín. Við sem búum í sjávarplássunum og höfum alist upp við sjávarsíðuna, þekkjum þessa ógn og þann kvíða sem setti að okkur þegar veður voru hörð og bátar á sjó. Þegar sjóslys verður, er það sem þungt högg á allt samfélagið. Og við slíkar aðstæður verður samkenndin sterkust.

Hugur okkar er núna hjá aðstandendum sjómannanna sem létust við störf sín. Þeim eru sendar innilegar samúðarkveðjur.

“Þegar brotnar bylgjan þunga,

brimið heyrist yfir fjöll,

þegar hendir sorg við sjóinn,

syrgir, tregar þjóðin öll.”

Þennan áhrifaríka sálm syngjum við gjarnan á Sjómannadaginn, en einnig á kveðjustund sjómanna. Þessi sálmur hrærir við réttmætum tilfinningum okkar á sorgarstundum í sjávarplássunum okkar. Í þessum orðum skáldsins Jóns Magnússonar kristallast tilfinning okkar sem þjóðar þegar sjóslys verða. Engin orð kann ég sem lýsa þessu betur; “syrgir, tregar, þjóðin öll”.

Og það rifjast upp sárir tímar, þegar sjóslys urðu. Sem betur fer hefur margt áunnist í öryggismálum sjómanna. Betri bátar og skip, aukin vitneskja um veðurlag, reynsla og margs konar ráðstafanir í öryggismálum sjómanna hafa skilað árangri.

En hið hræðilega slys núna, minnir okkur engu að síður á að starf sjómannsins við erfiðar aðstæður er ekki hættulaust. Okkur ber því skylda að hafa öryggismálin sem fyrr í forgangi. Það er okkur öllum ljóst og það skulum við því gera.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband