Brugðist við miklum vanda

VestfirðirSú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stofna starfshóp um vanda Vestfjarða er skynsamleg, nauðsynleg og réttmæt. Aðstæður á Vestfjörðum eru mjög sérstakar og enginn landshluti hefur orðið fyrir svo miklum áföllum vegna íbúafækkunar sem Vestfirðir. Sveitarstjórnarmenn vestra komu á fund fulltrúa ríkisstjórnarinnar 2. febrúar sl. og lögðu fram tillögur til þess að takast á við þann vanda sem þar er til staðar. Bæjarstjórinn á Ísafirði, sem einnig er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hélt á fund forsætisráðherra í síðustu viku til þess að ræða sömu mál og um helgina var haldinn borgarafundur á Ísafirði um umrædd mál.

Fækkun íbúa, alvarleg áföll sem nú hafa orðið í atvinnulífinu og sá kvíði sem er til staðar vegna erfiðrar stöðu atvinnulífsins kallar á það að menn snúi sér að verkefninu. Það er gert af krafti með þessari ákvörðun. Í nefndinni eiga sæti fjórir fulltrúar. Tveir frá ríkisvaldinu, tveir að vestan. Þeim síðarnefndu er vitaskuld ætlað að vera fulltrúar alls svæðisins, allra Vestfirðinga.

Var þörf á nefnd?

Ég hef séð spurt hvort ekki hefði mátt koma með tillögur strax. Það er í raun og veru verið að koma með tillögur skjótt. Nefndin hefur innan við mánuð til starfa. Inni í þeim tíma eru páskar. Nefndin hefur því ekki mikið ráðrúm. Hún á að skila tillögum mjög hratt.

Einhvers staðar var því svo haldið fram að nefndarskipanin væri einhvers konar kosningatrix. Ég mótmæli því harðlega. Nefndinni er einmitt ætlað að koma fram með haldbærar tillögur svo fljótt til þess að þær verði sem fyrst gerðar að veruleika.

Þessi nefndarskipan er ákveðin af góðum hug og er eingöngu ætlað eitt verkefni; að leggja fram tillögur sem bæta búsetuskilyrði á Vestfjörðum. Menn hljóta að geta horft á þessa ákvörðun á efnislegum forsendum en reyna ekki að bregða á hana annarlegu ljósi. Slíkt þjónar ekki tilgangi; allra síst tilgangi sem þjónar vestfirskum hagsmunum.

Ýmislegt liggur þegar fyrir

Ætla má að byggt verði á fjölmörgum tillögum sem fyrir liggja. Á sínum tíma var unnið mikið starf í stórri skýrslu um Vaxtarsamning Vestfjarða, sem út var gefinn á prent í byrjun janúar árið 2005. Þar getur að líta tillögur og hugmyndir sem vonandi verður hægt að efla og styrkja. Fulltrúar Vestfirðinga eru þaulkunnugir málum á svæðinu og vita vel hvað helst hefur verið rætt til þess að unnt sé að koma með skjótvirkar tillögur sem hrinda má í framkvæmd sem fyrst.

Þetta er önnur hlið málsins. Hún lítur sem sagt að því að koma fram með tillögur sem hrinda má fljótt í framkvæmd. Hin hlið málsins lítur þá að því að koma fram með tillögur sem horfa til lengri tíma, þó þannig að ljóst sé að þær verði settar í gang með þeim undirbúningi sem nauðsynlegur er. Það skiptir ekki minna máli. Bráðaaðgerðir eru eitt og þær skipta máli, en lengri tíma áform eru líka nauðsynleg.

Gríðarlegar framkvæmdir

Við vitum til dæmis að nú eru í gangi - og að hefjast - gríðarlegar vegaframkvæmdir á Vestfjörðum. Þær lang mestu í manna minnum. Hafinn er áfangi í Gufudalssveit og ennþá stærri áfangi verður boðinn út í beinu landfræðilegu framhaldi með þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar og vegi inn Þorskafjörð og um Skálanes. Verkefnið framundan á þessu svæði er síðan að leggja áherslu á að flýta því sem eftir stendur í framkvæmdum á leiðinni á Barðaströnd. Það gæti skipt miklu máli fyrir byggðir Vestur Barðarstrandasýslu. Framkvæmdir eru hafnar við þverun Mjóafjarðar og Reykjafjarðar og þar með að lokaáfanga í Ísafjarðardjúpi. Fjármagn er tryggt í Óshlíðargöng og tímasetning útboðs ræðst svo af því hversu vel gengur að hanna verkefnið; vonandi verður það útboð sem fyrst á haustmánuðum. Arnkötludalsleiðin er í útboði og verða tilboð opnuð á þriðjudaginn. Dýrafjarðargöng eru í fyrsta skipti komin á Samgönguáætlun.

Þessar framkvæmdir munu skipta miklu máli fyrir Vestfirði. Áhrifanna mun ekki gæta strax en við vitum öll hversu gríðarlegt mál þetta er fyrir byggðirnar allar.

Margvíslegur vandi

Sá vandi sem að steðjar á Vestfjörðum er margvíslegur. Það sem nú brennur heitast er atvinnuvandinn og sú staðreynd að störfum er að fækka, meðal annars vegna gjaldþrota og uppsagna fyrirtækja. Hér er um að ræða ákvarðanir einstakra fyrirtækja, sem eiga í sjálfu sér ekkert skylt við séraðstæður okkar vestra. Þá hefur verið bent á flutningskostnað sem sé sligandi fyrir margt atvinnulíf og rekstur heimila. Það er augljóst að sjónir nefndarinnar munu m.a beinast að þessum þætti.

Samhugur stjórnmálamanna

Stjórnvöld vilja við þessar aðstæður axla það verkefni að bregðast við, einfaldlega vegna þess að ekki verður séð að úr geti ræst án þess. Það er mikilvægt að stjórnmálamenn úr öllum stjórnmálaflokkum snúa nú bökum saman í þessari viðleitni. Við þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu, sem erum fulltrúar Norðvesturkjördæmis, höfum hist og munum halda því áfram til þess að vinna að tillögum að lausn hins brýna vanda. Við látum ekki mismunandi stjórnmálaáherslur raska þessu starfi okkar. Við vitum að hér er um miklu stærri mál en svo að það megi trufla stærra verkefni.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband