29.3.2007 | 18:26
Steinbíturinn boðar vorkomuna
Það var stundum haft eftir Einari afa mínum í Bolungarvík að það boðaði vorkomuna þegar steinbíturinn veiddist út af Skálavíkinni. Það má vel vera að fleiri séu bornir fyrir þessum orðum, en allavega þá kom þetta mér í hug þegar ég fór á dögunum on´á Brjót í Bolungarvík og sá bátana koma inn hlaðna af steinbít, sem þeir höfðu fengið út af Skálavíkinni, örskotsstund frá Bolungarvík.
Það er gaman að vera í kring um svona mikið líf, sem skapast á höfninni við þessar aðstæður. Afli krókaaflamarksbáta allt upp í 17 tonn eftir daginn, er náttúrlega alveg ævintýralegur og fyllir mann bjartari von. Körin fleytifull af sladdanum og ys og þys á Brjótnum. Lyftarar aka um og eins gott að vara sig. Gamlir sjómenn koma og spyrja eftir fiskiríi. Fjölskyldur kannski mættar on´eftir og svo spyrjast aflafréttirnar út um bæinn.
609 kíló á balann, var mér sagt í dag. Þetta er svo ævintýralegt að við getum ekkert sagt, en bara dáðst að þessum guðsgjöfum, þessu mikla fiskiríi.
Það verður vor í lofti og vor í sinni, á svona stundum, enda var Víkin eins falleg og hún getur verið, lognvær og kyrr.
“Það er fallegt hér þegar vel fiskast”, var eitt sinn líka sagt og ég hef heyrt menn heimfæra þau orð upp á ýmsa staði við sjávarsíðuna. Og það eru líka orð að sönnu svo víða.
Fiskifræðingar tala oft um veiðanleika fisks. Ekkert hefur vantað upp á slíkt þessi síðustu dægri. Eftir erfiðan vetur til hafsins, brælur og ótíð, hefur aflinn rokið upp svo nánast er einsdæmi. Margir spáðu vondri vertíð vegna ótíðarinnar, en nú er talað um góða vertíð vegna þessa skots sem orðið hefur í aflabrögðunum.
Við heyrum af góðum afla víða um land. Sjónvarpið hefur sýnt myndir frá bátum sem koma drekkhlaðnir að landi á Suðurnesjum. Bátar á Snæfellsnesi hafa mokfiskað svo mjög að þeir eru að því er mér er sagt sumir að draga upp; búnir með vertíðina og það jafnvel áður en hrygningarstoppið hefst nú í næsta mánuði. Sjómenn tala um að fiskurinn sé vel haldinn, enda gengur loðnan og síldin vestur fyrir land og nú er fiskurinn að leggjast í ætíð. Fullyrðingar um hin dauðu mið, sem skrifað var um í löngu máli í grein í Morgunblaðinu eftir upprennandi stjórnmálamann, eru í litlu samræmi við veruleika sjómannanna sem nú koma að landi með ígildi síldarhleðslna.
Það hefur verið hressandi að sjá fréttir af þessum góðu aflabrögðum rata inn á forsíður dagblaðanna og í fréttatíma útvarps og sjónvarps. Einhvern veginn hefur manni fundist að allt snerist nú um ávöxtun og kaup og sölu hlutabréfa. En þrátt fyrir allt slíkt tal veit þjóðin það vel að sjávarútvegurinn er burðarásinn okkar og það er fallegt um að litast þegar vel fiskast.
Og svo að lokum þetta: Vonandi hefur vorið nú hafið innreið sína með steinbítnum út af Skálavíkinni !
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook