1.4.2007 | 18:14
Kosningaskrifstofa opnuð á Ísafirði
Opnun kosningaskrifstofunnar okkar á Ísafirði á föstudaginn var tókst mjög vel. Fjölmenni mætti og það var mikill hugur í mannskapnum. Við gerum okkur grein fyrir því að framundan er mikil vinna og við erum staðráðin í því að vinna vel og leggja hart að okkur til þess að ná árangri.
Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og frambjóðandi í alþingiskosningunum, setti opnunarathöfnina með snjallri hvatningarræðu og gaf mér síðan orðið. Því næst fluttu þau Helga Margrét Marsellíusardóttir og Birgir Sigurjónsson flott tónlistaratriði. Að því búnu flutti Elvar Logi Hannesson einleik eins og honum er einum lagið og kallaði svo til liðs við nokkra nærstadda gesti og við fluttum saman Kómedíu byggðastefnuna við góðar undirtektir. Loks flutti Einar Oddur hvatningarræðu.
Þetta er þriðja kosningaskrifstofan sem við opnum. Fyrsta skrifstofan var opnuð á Akranesi, þar sem Haraldur Helgason ræður ríkjum, því næst á Sauðárkróki þar sem Björn Björsson verður kosningastjóri og loks skrifstofan á Ísafirði undir stjórn Inga Þórs Ágústssonar. Við erum einnig búin að opna glæsilega heimasíðu, www.nordvesturland.is
Það gladdi okkur síðan og hleypti enn meiri krafti í mannskapinn, að inn á kosningaskrifstofuna bárust fréttir af góðri skoðanakönnun Capacent Gallup. Það eykur vígamóðinn. En við vitum að ekki er á vísan að róa. Það er árangurinn 12. maí sem máli skiptir.
Framundan er snörp kosningabarátta. Við höfum séð hvernig pólitískir andstæðingar móta málflutning sinn. Mikil gagnrýni, en fátt um tillögur. Jafnvel í málum sem rædd hafa verið í þaula örlar ekki á málefnalegri stefnumótun, en mikið getur að líta af pólitískum yfirboðum, þar sem milljarðatuga útgjöld spretta fram sem ekkert sé.
Við vitum hvað slíkt hefur í för með sér. Þenslu og verðbólgu til skemmri tíma litið, en skattahækkanir þegar fram í sækir.
Þessari þróun verðum við að afstýra. Því eru kostirnir svo skýrir.
Það verður gaman að taka þátt í baráttu komandi vikna og finna þann mikla og góða hug sem fylgdi okkur hjá öllu því fólki sem mætti til opnunarinnar. Við vitum nefnilega að við þurfum á hinum góða liðstyrka að halda til þess að ná þeim árangri sem við stefnum að
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook