Skjól fyrir skoðanaleysi

Atkvæðagreiðsla"En það að vísa stórum málum til kjósenda leysir stjórnmálamenn ekki undan þeirri skyldu að hafa skoðun á þeim. Þjóðaratkvæðagreiðslur eiga ekki að vera skjól fyrir skoðanaleysi eða hlutleysi í mikilvægum málum"

Þessi skynsamlegu orð getur að líta í grein eftir Þórunni Sverinbjarnardóttur þingmann Samfylkingarinnar í Blaðinu 4. nóvember sl. Sama dag og greinin var skrifuð tók ég hana upp hér á heimasíðunni og tók undir efni hennar. Hér er einmitt komið að kjarna málsins. Menn hafa talað gagnrýnislítið um ágæti almennra atkvæðagreiðslna. Morgunblaðið hefur hvatt mjög til þess arna. Sá sem hér stýrir tölvubendli hefur hins vegar haft sínar efasemdir. Einmitt vegna þess sem Þórunn vekur athygli á í sinni ágætu grein.

Þessi aðvörunarorð eiga sérdeilis vel við núna. Við höfum undanfarnar vikur nefnilega séð alla þá galla við slíkar almennar atkvæðagreiðslur birtast í sinni verstu mynd. Það er efnt til atkvæðagreiðslu um skipulagsmál í Hafnarafirði. Í raun er þó verið að taka afstöðu til þess hvort stækka eigi álverið í Straumsvík um svo sem eitt Fjarðaáls - álver eða svo. Málið er í eðli sínu pólitískt. Það er ákveðið að skjóta ákvörðuninni til kjósenda og ekkert nema gott um það að segja.

Ekki stikkfrí

En það fríar ekki kosna fulltrúa undan ábyrgð. Þeir verða ekki stikkfrí fyrir vikið. Þeir eru eftir sem áður hinir pólitísku fullttrúar. Leiðtogar í samfélaginu og leiðtogar elta ekki hópinn. Þeir hafa skoðun á því hvert skuli stefnt.

En ekki í Hafnarfirði. Þar kjósa menn að láta atkvæðagreiðsluna búa til skjól fyrir sig. Þetta er einsdæmi, en dregur upp mynd af hættunni, sem fylgir atkvæðagreiðslum af þessu tagi. Til undrunar þá kom fram sú skoðun í Silfri Egils í dag að afstöðuleysi krataforingjanna í Hafnarfirði væri til þess fallið að sætta sjónarmið ólíkra fylkinga, nú eftir að niðurstaða er fengin. Þetta er ótrúlegur málflutningur.

Afstöðulaus til EES eða Kárahnjúka?

Tökum nú dæmi.

Tvisvar hefur það amk. gerst nú á síðustu árum að krafist hefur verið almennrar atkvæðagreiðslu á meðal þjóðarinnar um stórmál. Annars vegar vegna aðildar okkar að EES og hins vegar vegna Kárahnjúkavirkjunar og álversins fyrir austan. Af slíkri atkvæðagreiðslu  varð í hvorugt skiptið. En ætli nokkrum manni hefði dottið í hug að hefðu slíkar atkvæðagreiðslur farið fram, þá hefðu stjórnmálamenn staðið álengdar hjá - alveg skoðanalausir. Hefði til dæmis Jón Baldvin ekki haft skoðun á EES samningnum, eða Valgerður Sverrisdóttir á álverinu fyrir austan, svo dæmi séu tekin.  Það þarf ekki að svara slíkum spurningum. Svarið liggur í augum upp og þjóðin kann það svar.

Stóra hættan við almennar atkvæðagreiðslur er nefnilega sú að þær geri pólitískar línur óskýrar. Að smám saman standi kjósendur frammi fyrir óljósum kostum í þjóðmálum. Þetta er þekkt reynsla úr löndum þar sem menn nota þetta fyrirkomulag. Það er óhugnanlegt að vita til þess að slíkt skyldi koma fram í fyrstu atkvæðagreiðslunni sem einhver alvara var í nú síðari árin. Hér er ekki tekinn með í reikninginn  atkvæðagreiðslan um Reykjavíkurflugvöll. Sú atkvæðagreiðsla var slíkur farsi.

Ekki að hlaupa á eftir hjörðinni

Við sjáum líka að inngrip fjársterkra aðila vekur strax upp spurningar og sömuleiðis óljóst hlutverk óskilgreindra hagsmunasamtaka. Þarna geta því tekist á óskilgreindir hópar og öfl sem engum reglum lúta um fjárframlög. Allt eins og við spáðum mörg hver, meðal annars í aðdraganda umræðunnar um fjármál stjórnmálaflokkanna.

Nú er einn þáttur afstaðinn. Mikilvægt er að við lærum af reynslunni. Og enn skal vitnað í Þórunni Sveinbjarnardóttur: "Stjjórnmálamenn eiga ekki að hlaupa á eftir hjörðinni, eða láta karlakjaftaþættina stjórna sér. Þeir eiga að hlusta á fólkið, taka upplýstar ákvarðanir byggðar á lífsskoðun sinni og hugsjónum og vera óhræddir við að leiða þjóðina inn í nýja tíma"




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband