17.5.2007 | 14:24
Setið með Þorsteini á kosninganótt
Kosninganætur eru jafnan æsispennandi. Það átti mjög vel við um síðustu kosninganótt. Þingmenn og frambjóðendur sveifluðust inn og út af þingi. Minn gamli góði vinur Ólafur Þ. Harðarson prófessor á kollgátuna því hann hefur sagt: Kosningakerfið hefur amk. ótvírætt skemmtigildi hvað sem menn segja um það að öðru leyti !
En til viðbótar við það að fylgjast með kosningatölum sem streyma inn má sjá sem í sjónhendingu upplýsingar um það hvernig þær breyta hinu pólitíska ástandi. Okkur voru líka birtar stjórnmálaskýringar, sem eru eru svo sem upp og ofan, en þó jafnan skemmtilegar. Ólafur Þ. Harðarson hefur vitaskuld skapað sér algjöra yfirburðastöðu á þessu sviði; vel að sér, yfirvegaður og kann nægilega mikið í þessu fagi til þess að vita að kosningakerfið er til alls víst og því varhugavert að túlka of mikið fyrr en síðasti seðillinn hefur verið dreginn upp úr kjörkassanum.
Þegar Þorsteinn Pálsson ritstjóri birtist á skjánum lagði ég vel við hlustir. Ég veit það af meira en 30 ára reynslu að þegar hann tekur til máls um pólitískar greiningar, í bland við stjórnmálasagnfræði þá er ástæða til að hlusta. Hann hefur einstæða reynslu. Blaðamaður á hinu pólitíska sviði, ritstjóri Vísis, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, forystumaður í Sjálfstæðisflokknum, ráðherra - meðal annars forsætisráðherra og nú ritstjóri útbreiddasta blaðs landsins. Þeir finnast engir aðrir sem hafa þessa reynslu, sem bætist við skarpskyggni og áhuga á stjórnmálum.
Við kynntumst fyrst fyrir meira en 30 árum. Hann ungur laganemi í starfsnámi hjá sýslumanninum á Ísafirði. Ég ofurpólitískur menntaskólanemi og fékk hann til að tala um stjórnmál í MÍ. Síðan varð ég blaðamaður hjá Þorsteini á Vísi í tvö ár og fréttaritari blaðsins í einhver ár frá Bretlandi, félagi hans í Sjálfstæðisflokknum og samstarfsmaður á Alþingi.
Þetta skýrir hvers vegna ég lagði svo einkanlega vel við hlustir þegar Þorsteinn var kallaður til að tjá sig um stöðuna. Ég vissi að eftir miklu var að slægjast. Greining hans var sem vænta mátti yfirveguð og rétt.
Ég dró mig því út úr skarkalanum á kosningaskrifstofunni okkar á Ísafirði, þar sem ríkti mikil stemming og hörkustuð, eftir því sem kosningasigur okkar varð skýrari er á nóttina leið. Þannig vildi ég tryggja að ekkert færi fram hjá mér. Og þar sem ég sat þarna, með vökva lífsblómsins í forgrunni ( sem ég lét þó alls ósnertan) , X-D skiliríin á veggjum og upptekinn við að hlusta á Þorstein, smellti Sigrún María dóttir mín þessari mynd af mér - og raunar af okkur félögunum. Annar þiggjandinn og hinn veitandinn á pólitískar analýsur - eins og svo oft áður.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook