Framfarirnar fækka störfunum

FiskurAfköst í fiskvinnslu og fiskveiðum hér á landi hafa aukist gríðarlega mikið á síðustu árum. Þessi afkastaaukning hefur verið meiri og hraðari núna en hér áður og fyrr. Þetta veldur mestu um að störfum hefur fækkað í sjávarútvegi og þar með stuðlað að því að þessi þáttur atvinnusköpunar okkar skipar annan sess en fyrrum.

Þetta kemur glögglega fram í skýrslu Hagfræðistofnunar um Þjóðhagsleg áhrif aflareglu. Á blaðisíðu 60 - 61 er fjallað um þessi mál. Vakin er athygli á því að á árunum 1991 - 1997 hafi framleiðni í fiskvinnslu aukist um 1,3% árlega í fiskveiðum en um 4% í fiskvinnslu. Þegar við skoðum þróunina nær okkur í tíma er ljóst að framleiðniaukningin hefur svo orðið ennþá hraðari. Þannig má sjá að á árunum 1998 til 2006 var framleiðniaukning í fiskveiðum 3,1% á hverju ári en 5,5% í fiskvinnslunni.

En hvað .þýðir þessi framleiðni?

Jú,  henni er ætlað að mæla fjölda starfa annars vegar og verðmætis þess sem þessar atvinnugreinar búa til. Þannig fáum við fram mælikvarða á afköst. Það sem hefur gerst í sjávarútvegi - sem nýtir takmarkaða auðlind - er það að færri hendur þarf til að búa til verðmætin. Ekki vegna þess að verðmætin séu minni. Heldur vegna þess að afköstin hafa aukist með tæknibreytingum. Við sjáum þetta hvarvetna.

Við sjáum þetta í ævintýralegum afköstum sjómanna. Tökum bara dæmin af sjómönnunum á krókaaflamarksbátunum, sem  hafa aflað allt að 1500 tonnum, tveir menn á. Þetta er örugglega heimsmet. Svo getum við velt fyrir okkur afkastaaukningunni í fiskvinnslunni. Tökum  dæmi úr rækjuverksmiðjunum, í uppsjávarvinnslu og raunar hvar sem litið er. Allt er á sama veg, aukin tækni, bætt stýring og vélvæðing og meiri afköst.

Allt þetta hnígur að hinu sama. Tæknin leysir málin. Það er verkefni fyrirtækja á borð við 3X, Skagann og Marel að finna slíkar lausnir sem leiða til færri starfa, aukinna afkasta og nýrra möguleika við vinnsluna. Þess vegna getum við samfara þessu aukið verðmætin, sem aftur stuðlar að aukinni framleiðni og verðmætasköpun.

Birgir Ármannsson alþingismaður leiddi þetta síðan fram í spurningu á Alþingi í vetur. Þar kemur fram að störfum í sjávarútvegi hefur fækkað mjög umtalsvert. Sjö þúsund sjómenn störfuðu við fiskveiðar árið 1995. Í fyrra voru þeir 4.300. Fækkunin nemur sem sé 37,8%.  Í fiskvinnslunni voru starfsmennirnir 9 þúsund árið 1995 en eru núna 4.100. Fækkunin er 54,8%. Þetta er sem sé að gerast á einum áratug.

Þessi afkastaaukning var sjávarútveginum bráðnauðsynleg. Þannig gat framleiðnin í þessari undirstöðuatvinnugrein okkar haldið í við þróunina í öðrum atvinnugreinum - og það tókst. Ef ekki hefðu starfsmenn í sjávarútvegi einfaldlega horfið til annarra og betur launaðra starfa. En afleiðingarnar eru margar og ekki síst byggðalegar, eins og við þekkjum.  Sjávarútvegurinn er undirstaða atvinnulífsins á landsbyggðinni og fækkun starfa hefur fyrst og fremst afleiðingar þar. Svarið er hins vegar ekki að koma í veg fyrir framleiðniaukningu heldur að skjóta margháttaðri stoðum undir atvinnulífið á landsbyggðinni líkt og hefur gerst í þjóðarbúinu í heild. Það er stóra verkefnið okkar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband