Kaflaskil í breskri sögu

Tony BlairÞegar Tony Blair kveður bústað breska forsætisráðherrans að Downingstræti númer 10 í Lundúnum kl. 13 í dag verða í rauninni kaflaskil í breskum stjórnmálum. Blair er eitt af stóru nöfnunum í breksum stjórnmálum; amk. á ofanverðri 20. öldinni og leiddi þjóð sína inn í 21. öldina. Hann markaði í raun þau tímamót, að brotthvarf hans úr breskum stjórnmálum kallast á enskri tungu, an end of an era; kaflaskil.

Gleymum því ekki að um árabil var breski Verkamannaflokkurinn í rauninni ekki kostur í stjórnmálum. Stefnumið flokksins voru svo gjörsamlega úr takti við þjóðfélagsþróun á ofanverðri 20. öldinni. Hann kunni svör á sinn hátt við spurningum fortíðarinnar, en var úti að aka þegar kom að samtímanum og hvað þá framtíðinni. Hin endanlega niðurlæging flokksins var veturinn 1978, óánægjuveturinn ( winter of discontent) ; þegar gamla heimsveldið varð leiksoppur óvæginna verkalýðsfélaga og ekki var einu sinni hægt að hreinsa ruslið af götum og torgum höfuðborgarinnar. Eyðimerkurgangu Verkamannaflokksins, sem hófst með kjöri Margrétar Thatcher, lauk ekki fyrr en Blair leiddi flokkinn til sigurs.

Lykillinn að sigurgöngu Verkamannaflokksins var sýn John Smith, Tony Blair og Gordons Brown. Þeir voru holdgervingar þeirra breytinga sem flokkur þeirra gekk í gegn um, þó færa megi rök að því að Neil Kinnock forveri þeirra hafi rutt veginn að einhverju marki. Flokkurinn söðlaði um, hvarf frá gömlum skoðunum sínum og þess vegna fóru menn að tala um New Labour - nýja Verkamannaflokkinn. - Til þess að aðgreina hann frá þeim gamla.

Blair fylgdi stefnu sem Thatcher hafði mótað, um aukið efnahagslegt svigrúm atvinnulífsins. Hann hvarf ekki til baka heldur fylgdi stefnu sem hann útfærði byggða á grunni þeirra breytinga sem Thatcher hafði gert á bresku þjóðfélagi. Þegar hann tók við, var hann spurður um áhersluatriði sín. Svar hans var að þrennt myndi marka stjórnarstefnuna; menntun, menntun og menntun.

Tæplega varð þetta þó lýsingin á því sem seinna gerðist, enda fremur hugsað sem myndræn útlistun á kaflaskilunum sem hann vildi móta í stefnu flokks síns.

Leiðtogar eru umdeildir og Blair er núna einkum nefndur í tengslum við hið umdeilda Íraksstríð. Þegar tímar líða verða það þó önnur atriði sem standa munu upp úr. Við höfum flest skammtímaminni þegar kemur að mati á pólitískri sögu og fjarlægðin mun því auðvelda okkur að gera upp það tímabil sem kennt verður við Blair. Því þannig verður það. Blair-tímabilið.

Menn spyrja um áherslubreytingar núna þegar Gordon Brown tekur við. Þær verða einhverjar vitaskuld. Hann hefur ekki hinn pólitíska sjarma Blair. Honum er nauðsyn á að búa til skil. En gleymum ekki einu. Gordon Brown var hinn aðalhönnuðurinn að Ný-Verkamannaflokknum, eins og Michael Portillo fyrrum vonarstjarna Íhaldsflokksins skrifar í The Times í dag.  Brown  er höfundurinn að skattalækkunum til þeirra betur stæðu sem ríkisstjórnin bjó til og mun ekki undir nokkrum kringumstæðum sjá á eftir kjósendahópnum á miðjunni til Íhaldsflokksins. Það er því ekki mikilla breytinga að vænta í Bretlandi. Íhaldsflokkurinn þarf hins vegar að búa til nýja herstjórnarlist til þess að sigrast á nýja hershöfðingjanum í Downingstræi númer 10.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband