Í Grænlands fögru byggðum

40Heimsókn til Grænlands í síðustu viku stendur upp úr. Það skemmdi ekki fyrir að veðrið var dásamlegt; sólskin og ísjakarnir á djúpum fjörðunum, fjöllin sem gnæfðu við himin og lágreist húsin voru gyllt með geislum sólarinnar. Brattahlíð, þar sem bær Eiríks rauða stóð blasti við gegnt fjarðarins þegar lent var á flugvellinum í Narsarsuaq. Sigling yfir fjörðinn færði okkur inn á þessar merku söguslóðir.

En sunnar í firðinum er svo Narsaq; 1700 manna bær, heimabær starfsbróður míns Finns Karlsen sjávarútvegsráðherra Grænlands. Við sátum þar á fundi, sjávarútvegsráðherrar Norður - Atlantshafsins og staðgenglar þeirra og ræddum sameiginleg hagsmunamál. Við fundarlok gafst svo færi á skoðunarferðum um nágrennið. Myndin af nágranna okkar í vestri varð smám saman skýrari.

Þorskurinn að koma til?

Niðri við höfn sáum við sjómenn landa afla sínum, fremur smáum þorski veiddum innfjarðar. Ég hitti gamalreyndan sjávarútvegsmann sem fagnaði því að loksins væri farið að sjást þorskur. Það vekur vonir sagði hann þó ekki væri aflinn mikill í magni talið. Rækjuverksmiðjunni hafði verið lokað og þorskurinn og bleikjan varð aðalhráefnið í fiskvinnslunni.

Leitað íslenskra fyrirmynda

En menn hyggja líka að öðrum þáttum. Ferðaþjónusta vex nú hratt í Grænlandi. Þeir sögðust leita fyrirmynda hér á landi. Leiðsögumaður sagðist hafa áhuga á að komast yfir breytta jeppa, eins og á Íslandi til þess að aka með ferðamenn upp á jökla og í víðernið, rétt eins og Íslendingar tíðka. Náttúran sjálf er aðal aðdráttaraflið, eins og hér heima. Svo sækjast menn í veiði, á hreindýrum og fleiri dýrategundum og hver spræna og hver á, er full af silungi. Þeir sögðu okkur að Íslendingar væru farnir að streyma til Grænlands í slíkar veiðiferðir í ágúst. Og menn höfðu við orð að næst væri það auðvitað að byggja betri aðstöðu til að taka á móti ferðamönnunum og tryggja að þeir skildu eftir fjármuni fyrir veittan viðurgjörning og þjónustu.

Grænland er ríkt af jarðefnum

En það er fleira á döfinni. Við veittum athygli tíðum þyrluflugferðum þennan tíma sem við stoppuðum. Skýringanna var að leita í því að ástralskt og kanadískt fyritæki þreifar nú fyrir sér um námuvinnslu á svæðinu. Grænland er ríkt af verðmætum jarðefnum og íbúarnir í Narsaq sáu tækifæri í því að njóta þeirrar uppbyggingar sem yrði ef námuvinnsla hæfist í einhverjum mæli. Könnunarboranirnar voru þegar að skila tekjum inn í samfélagið. Námufélögin þurfa þjónustu og fjármunir verða til.

Álversvæðing?

Það hafði líka vakið bjartsýni að búið var að leggja gríðarlega mikla rafmagnsstrengi yfir Eiríksfjörðinn til þess að flytja rafmagn frá nýrri vatnsaflsstöð. Sú stöð leysir díselaflið af hólmi. Fram til þessa hefur reynst nauðsynlegt að birgja sig upp með miklu olíumagni á haustin til þess að eiga nóg til ljósa og hita yfir veturinn. Nýja rafmagnslínan gerir slíkt ónauðsynlegt. Grænlendingar eru líka farnir að huga að ennþá frekari notum af orkulindum sínum. Líkt og hér líta nú álfyrirtæki til Grænlands í von um að geta keypt þar orku til reksturs álverskmiðja í Grænlandi. Einnig þarna eru vonir bundnar við að álverskmiðjur geti aukið fjölbreytni atvinnulífsins, skapað störf, búið til verðmæti og lagt grundvöllinn að styrkari stoðum efnahagslífins.

Þetta hljómar allt kunnuglega. Grænlendingar horfa til þess að geta aukið fjölbreytni atvinnulífs síns og dregið úr hlutfallslegu mikilvægi þeirra atvinnugreina sem hafa verið snarasti þátturinn í atvinnusköpuninni hingað til. Tækifærin eru vonandi handan við hornið. Það bendir nefnilega margt til þess að grænlenskt samfélag geti verið að breytast hraðar en okkur grunar.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband