4.7.2007 | 19:11
Landbúnaðurinn er í harðri samkeppni
Búvörusamningnum verður ekki breytt. En mun ríkisstjórnin beita sér fyrir auknu frelsi í innflutningi landbúnaðarvara? Þessi spurning er lögð fyrir mig í nýjasta hefti Frjálsrar Verslunar. Svar mitt sem hér fer á eftir er birt undir fyrirsögninni Stórfelldur innflutningur ekki skynsamlegur. Það fer hér á eftir.
Íslenskur landbúnaður hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Greinin er í harðri samkeppni innanlands, bæði á milli einstakra búgreina og við aðra matvælaframleiðslu. Breytt fyrirkomulag búvörusamninga hefur skapað grundvöll til hagræðingar sem samkeppnin á innanlandsmarkaði hefur síðan ýtt undir. Inn í samningana er síðan byggð hagræðingarkrafa sem leiðir til lægri framlaga ríkisins vegna þeirra. Sams konar hagræðing hefur orðið hjá úrvinnslugreinunum.
Landbúnaðurinn hefur tekið á sig innlendar kostnaðarhækkanir án þess að þeirra gæti í verði til neytenda. Í nýjum sauðfjársamningi er gert ráð fyrir að útflutningsskylda hverfi, sem mun auka enn samkeppni innanlands á kjötmarkaðnum.
Landbúnaðurinn býr ekki við það verndaða umhverfi sem oft er látið í veðri vaka. Til viðbótar við það sem þegar hefur verið sagt er ljóst að starfsumhverfi hans mun ráðast í vaxandi mæli af alþjóðlegum viðskiptasamningum sem við erum aðilar að og verðum aðilar að í framtíðinni. Við þessar aðstæður er ekki skynsamlegt að hefja stórfelldan innflutning landbúnaðarafurða. Nú er mikilvægt að landbúnaðurinn fái tóm til þess að takast á við vaxandi samkeppni.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook