Í minningu vinar

Einar Oddur, Sigrún Gerða, Einar Kristinn og SigrúnÓskaplega getur ógæfunni orðið margt að vopni. Fráfall vinar míns og náins samverkamanns Einars Odds Kristjánssonar er hræðilegt áfall. Í baráttunni fyrir góðum málstað stóð hann ætíð þar sem orustan var hörðust og dró ekki af sér. Nú munum við finna til söknuðarins og þess missis sem fylgir því að sjá á bak góðum dreng, einlægum vini, hreinskipts félaga og einhvers mesta baráttumanns sem ég hef fyrir hitt.

Fas Einars Odds var þannig að hann vakti hvarvetna eftirtekt. Í hópi dró hann að sér athygli Sterk röddin, gustmikil framgangan og glaðvært yfirbragðið gerði það allt saman að verkum að nærvera hans leyndi sér ekki. Og þannig minnist ég hans frá upphafi. Í fyrstu í dálítilli fjarlægð. Hann var félagi föður míns í hópi sterkra og merkra útgerðarmanna fyrir vestan. Þegar ég fór síðar að láta til mín taka í stjórnmálum var Einar Oddur þar í hópi forystumanna og var einlægt leitað til hans þegar takast þurfti á hendur vandasöm verk. Ég laðaðist að þessum skemmtilega manni sem tók mér vel en nefndi mig aldrei með nafni mínu. Nafni minn, sagði hann ævinlega þegar hann ávarpaði mig og þannig var það líka til hinstu stundar. Þetta þótti mér vænt um og fannst að því fylgdi líkt og hlýtt faðmlag þegar hann ávarpaði mig svona.

Þegar ég leitaði kjörfylgis til Alþingis í fyrsta sinn hvatti hann mig. Sjálfur hefði hann átt greiða leið til þings fyrr en hann sjálfur kaus, hefði hann óskað þess. Slíkur var styrkur hans á Vestfjörðum og raunar á landsvísu. Það blöstu hins vegar við þáttaskil í framboðsmálum Sjálfstæðisflokksins í þingkosningum árið 1995 og ég hvatti hann til þátttöku. Við ræddum þessi mál í stofunni hjá honum á Sólbakka síðsumars árið 1994 og þá hafði hann afráðið að taka slaginn. Við gerðum okkur báðir vel grein fyrir því að þetta gæti orðið okkur erfitt og óþægilegt, gömlum vinum sem þyrftu að kljást; nokkuð sem er óhjákvæmilegt hlutskipti samverkamanna í stjórnmálum við slíkar aðstæður. En þá sem endranær birtist manni þroski hans og hreinskiptni. Hann sagði við mig. Nafni, nú fer í hönd erfiður tími fyrir okkur, við vitum að nú reynir á okkur báða og nú skulum við tala saman sem oftast, eyða misskilningi og koma í veg fyrir að nokkuð það gerist sem spillir vináttu okkar. Þessi ráð hans dugðu og á þau brugðum við líka síðar þegar á þurfti að halda. Þetta atvik finnst mér sýna þann mikla þroska sem Einar Oddur hafði til að bera og hversu honum var í mun að treyst bönd vináttunnar. Fyrir það get ég aldrei fullþakkað.

Við þessar kosningar hófst líka nýr kafli í lífi okkar beggja. Við vorum nánustu samverkamenn og við urðum þess fljótt áskynja að oft var um okkur talað í samhengi. Nafnarnir, eða Einararnir að vestan, var oft sagt. Ég var stoltur af því að vera spyrtur saman við minn góða félaga með þessum hætti. Það var svo ekki lakara að ýmislegt í fjölskylduumhverfi okkar var líkt. Mæður okkar hétu María og konurnar okkar Sigrún og þegar hún Sigrún Gerða hans kallaði Sigrúnu konu mína nöfnu þá var þetta eiginlega orðið fullkomið. Eða svo fannst okkur að minnsta kosti.

Ferðirnar okkar um kjördæmið voru svo sérstakur kapítuli. Þá kynntist ég betur öðrum hliðum nafna míns. Hann þekkti blóm og jurtir og fugla himinsins og reyndi sitt besta til að fræða mig um öll þau veraldarundur. Svo sveigðist samtalið kannski að sögunni, sem við tengdum umhverfinu sem við ókum um, eða bara sögu mannkyns, samhenginu í allri þeirri miklu framvindu, á milli þess sem við ræddum þau mál sem á okkur brunnu. Þetta var einstæður tími. Við vorum sammála því að það væru forréttindi að ferðast um svo fagurt land, hitta að máli fólk í leik og starfi, til þess að reyna að efla okkur í starfinu.

Í rauninni var Einar Oddur ótrúlega margbrotinn persónuleiki. Forystumaður í atvinnulífi og náði afar vel til starfsfólks og viðsemjenda sinna. Harðskeyttur stjórnmálamaður, sem var vinsæll í hópi stjórnmálalegra félaga sem andstæðinga. Stundum hrjúfur á yfirborði, en gæddur góðu hjartalagi. Hann sem sprottinn var upp úr saltbörðu umhverfi sjávarins, sótti sér athvarf í skógrækt og garðyrkju, átti óskoraða virðingu íslenskra bænda. Hann var fagurkerfi á menningarsviði, stundaði tónleika, var fastagestur á sinfóníutónleikum, sem koma okkur ekki á óvart sem vissum að á Sólbakka voru listamenn tíðir gestir.

Einar Oddur kom til þings með einstæða lífsreynslu. Hann hafði staðið fyrir öflugum og myndarlegum atvinnurekstri í heimabyggð sinni, var gjörkunnugur stjórnmálum og hafði uppskorið verðskuldaða aðdáun alþjóðar fyrir sinn mikla þátt í Þjóðarsáttinni. Vopnaður þessari miklu reynslu og leiftrandi gáfum, gæddur sannfæringakrafti mikils mælskumanns, hlaut hann að marka sér öflugan sess. Sú varð líka raunin. Til viðbótar við allt annað hafði Einar Oddur svo hæfileika sem ákaflega fáum er gefið; hann gat komið orðum að hlutum með svo einstæðum hætti að eftir því væri tekið. Þarna kom til frumleiki hans í hugsun og sá eiginleiki að skynja ný sjónarhorn sem okkur öðrum voru gjörsamlega lokuð.

Enginn vafi er á því að einmitt þessir eiginleikar, glaðbeitt fas og alþýðleg framkoma, gerðu honum kleyft að innsigla það mikla afrek, þjóðarsáttina, sem borið hefur hróður hans víðast. Þar gagnaðist honum að geta brotið upp á frjórri hugsun og ná þannig árangri. Þetta er guðsþakkarverður eiginleiki sem fáum er gefinn. Aldrei varð ég var við að Einar Oddur miklaðist af þessu mikla afreki sínu. Margur hefði reynt nýta slík verk, sér til pólitísks framdráttar. En ekki Einar Oddur. Frekar dró hann úr hlut sínum þegar þessi mál báru á góma.

Rætur Einars Odds voru í vestfirsku umhverfi. Þau áföll sem byggðirnar þar hafa orðið fyrir gengu nærri honum en hvöttu hann þó einvörðungu til frekari dáða. Snjóflóðið á Flateyri 1995 fékk þó mest á hann sem vonlegt var. Alþingi var tiltölulega ný hafið þennan fyrsta þingvetur hans þegar áfallið mikla skall á. Hann hringdi í mig um miðja nótt og sagði mér tíðindin og án frekari orða fórum við nafnarnir saman í miðstöð almannavarna þar sem við biðum frétta. Þetta var hræðilegur tími. Einar vissi hvar hans var mest þörf, tók sér frí var störfum sínum á Alþingi og þau Sigrún Gerða stóðu sína pligt á Flateyri og voru þar sú burðarstoð sem þau ævinlega voru í samfélaginu sínu; nú við erfiðari aðstæður en orð fá lýst. Hann taldi skyldur sínar vera við samfélagið sitt og brást þeim skyldum aldrei nokkurn tímann.

Það verður erfitt að hugsa um verkefnin framundan án Einars Odds. Svo oft unnum við saman að úrlausnarefnum erfiðra mála. Nú nýtur hans ekki við; einmitt núna þegar hans var svo mikil þörf. Upp í hugann hafa komið aðstæðurnar í starfi okkar þegar við ræddum erfið mál. Við stöppuðum stálinu hvor í annan og Einar sagði gjarnan í lokin og vitnaði í Þóri Jökul: Kostaðu hug þinn herða og bætti svo kannski við fyrstu línunum úr kvæðinu góðkunna. Upp skal á kjöl klífa/köld er sjávardrífa. Þetta var hans mottó; að láta ekki erfiðleikana buga sig, heldur bregðast bara harðar við. Þetta er leiðarljósið sem hann kveikti fyrir okkur samferðamenn sína og okkur ber að viðhalda.

 Þar sem sól hefur verið yfir Sandi, Barða og Sauðanesi, svo vitnað sé í frænda Einars Odds, skáldið Guðmund Inga, drúpir hún nú höfði og tregar svo góðan dreng. Við vinir og samferðamenn grátum hann. En umfram allt er mestur harmur kveðinn að fjölskyldunni á Sólbakka. Hugur okkar er hjá Sigrúnu Gerðu, Brynhildi, Kristjáni Torfa, Teiti Birni, tengdabörnunum og litla augasteininum hans afa síns honum Einari litla. Guð blessi minningu merkismanns og vinar og veri fjölskyldu hans hlíf og skjól.

Einar Kristinn Guðfinnsson




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband