2.8.2007 | 09:08
Perla örlaga og einstæðrar náttúru
Ótal sinnum hef ég ekið Dynjandisheiðina og hin síðari ár hef ég heitið mér því í hvert sinn að fara niður í Geirþjófsfjörðinn. Hann blasir við manni af heiðinni, ef grannt er skoðað og freistað mín. Þarna eru söguslóðir Gísla Súrssonar og þar háði hann sitt lokastríð á Einhamri skammt innan og ofan við bæjarstæðið í Langabotni. Það var svo fyrst núna, síðast liðinn mánudag, að ég átti þess kost að sækja fjörðinn heim í fylgd góðs fólks úr Landbúnaðarráðuneytinu og Landgræðslusjóði til þess að líta á aðstæður. Með mér í för var líka góðvinur minn Þórir Örn Guðmundsson frá Þingeyri. En um hann hef ég sagt -og stend við - að það sem hann ekki veit um Gíslasögu er ekki þess virði að vita.
Við félagarnir Þórir Örn og ég gengum af heiðinni ofan í Geirþjófsfjörðinn til móts við félaga okkar sem komu siglandi frá Bíldudal. Það er skemmst frá að segja. Geirþjófsfjörðurinn er ótrúleg náttúruperla, hefur verið í eyði frá árinu 1962, skógi vaxinn og sagan angar þarna nánast af hverjum hól og hverri þúfu. Leiðin er greiðfær og þægileg og auðvelt að átta sig á helstu sögulegu minjunum. Merkt hafa verið tvö fylgsni Gísla, Auðarbær og leiðin að Einhamri liggur um slóða og smekklegar stikur auðvelda manni að rata.
Þarna er enn ein perlan, sem kannski er ekki á svo margra vitorði. Þó er Gísla saga Súrssonar vel þekkt afar mörgum. lesin í skólum af heilum kynslóðum, ein glæstasta og örlagaríkasta frásögn Íslendingasagnanna, sem aukinheldur er uppistaðan í klassísku verki íslenskra kvikmyndabókmennta, Útlaganum, sem Ágúst Guðmundsson gerði hér fyrrmeir.
En það er ekki einasta að Geirþjófsfjörður geymi einstæða örlagasögu. Hann er náttúruperla, eins og þær gerast bestar. Og það er hann vegna hins fagra umhverfis, fossa, náttúrumynda, skógarins í bland við söguna sjálfa.
Svona er Ísland. Fullt af eftirsóknarverðum svæðum sem við þéttbýlisbúarnir sækjumst eftir. Það hefur gildi í sjálfu sér en er líka grundvöllur atvinnustarfsemi, eins og dæmin sanna. Í Dýrafirði hefur atorkusamt fólk verið að leggja grundvöll að uppbyggingu og afþreyingu sem meðal annars byggir á minnum úr sögu Gísla Súrssonar. Þarna liggja mikil og vaxandi tækifæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Haukadalurinn í Dýrafirði var völlur Gísla Súrssonar, en saga hins ógæfusama kappa teygir sig suður í Breiðafjörð og síðast en ekki síst - í hinn fagra Geirþjófsfjörð. Sú staðreynd skapar því samfellu sem er áhugaverð fyrir heimamenn og ferðamenn sem leggja nú leið sína á þessar slóðir í vaxandi mæli.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook