19.8.2007 | 15:13
Öflug atvinnugrein í örri þróun
Landbúnaðarsýningin á Sauðárkróki, Sveitasæla 2007, sem þar fór fram um helgina, var stórskemmtileg og fróðleg. Þar gat að líta fjölbreytni greinarinnar og þar mátti sjá hversu tæknivædd hún er. Ég hafði sjálfur gaman að hitta marga vini og kunningja sem komið höfðu til sýningarinnar; bæði voru þar vitaskuld Skagfirðingar og næstu nágrannar þeirra, vestan og austan að, en svo hitti ég fólk sem komið var af Vesturlandi víða, vestan úr Arnarfirði, Bolungarvík og af Barðaströnd svo dæmi séu tekin.
Ég fékk það hlutverk að ávarpa og setja þessa miklu sýningu, sem hét fullu nafni Sveitasæla 2007, Landbúnaðarsýning og Bændahátíð og rita einnig ávarpsorð í dagskrá og kynningarrit sýningarinnar. Þau ávarpsorð fylgja hér með.
Gagnstætt því sem oft er haldið fram í almennri umræðu, er íslenskur landbúnaður atvinnugrein í örri þróun. Flest hefur breyst við hefðbundin landbúnaðarstörf, tækni leyst mannshöndina af hólmi og hlutverk atvinnugreinarinnar hefur breyst. Landbúnaður krefst þekkingar á margvíslegum sviðum og slíku verður einvörðunga svarað með öflugri sókn í menntunarmálum landbúnaðarins og með kröftugri rannsóknar og vísindastarfsemi.
Allt þetta sjáum við þegar við skyggnumst um gáttir hér í Skagafirði. Öflugur landbúnaður setur mark sitt á héraðið. Margvíslegar búháttabreytingar hafa átt sér stað, ný atvinnustarfsemi hefur skotið þar rótum. Skil milli þess sem stundum er kallaður hefðbundin landbúnaður og annarrar atvinnustarfsemi í sveitum, eru fyrir löngu orðin ógreinileg. Ganga má svo langt að segja að úrelt sé að tala með þeim hætti að eitt sé hefðbundinn landbúnaður og annað óhefðbundinn. Í sveitum landsins fer fram margháttuð atvinnustarfsemi þar sem byggt er á fjölþættum grunni sem umhverfið og framtak einstaklinganna hefur mótað.
Þessar breytingar krefjast nýrra viðhorfa. Þess vegna er svo nauðsynlegt að öflug mennta, rannsóknar og vísindastarfsemi styðji við þessar breytingar. Sú uppbygging sem átt hefur sér stað í háskólanum hér á Hólum og í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri eru einmitt góð dæmi um þetta.
Með landbúnaðarsýningunni sem hér fer fram fáum við að kynnast fjölbreytni íslensks landbúnaðar. Þetta er vettvangur bænda og annarra þeirra sem starfa að landbúnaði. En hitt skiptir líka máli að hér fær áhugafólk um landbúnaðinn, fólk sem starfar utan hans, einnig að kynnast þessari starfsemi. Það skiptir máli.
Á miklu ríður fyrir okkur að glæða skilning á starfi því sem unnið er að á vettvangi landbúnaðarins og leggja okkar þannig að mörkum til þess að glæða þann skilning sem þarf að ríkja í landinu á mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir landið allt, þjóðinni allri til heilla.
Meginflokkur: Blogg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook