Vegagerð er öflug mótvægisaðgerð

Vegaframkvæmdir framundanÞað hefur vakið athygli margra - og undrun - að ýmsir hafa orðið til að gera lítið úr áformum ríkisstjórnarinnar um flýtingu vegagerðar. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var hluti af þeim mótvægisaðgerðum sem nú líta dagsins ljós ein af annarri. Og í ljósi þess að bættir vegir hafa löngum verið áhugamál almennings og stjórnmálamanna hefur það sætt undrun að ákvörðun um aukna vegagerð skuli hafa verið mætt af tortryggni og að reynt hafi verið að gera lítið úr henni af ótrúlegustu aðilum.

Í fyrsta lagi er vegagerð atvinnuskapandi þegar á henni stendur. Til dæmis er á Vestfjörðum öflugt verktakafyrirtæki í jarðvinnu og vegagerð, KNH verktakar, sem er með 70 til 80 manns í vinnu, þegar ritari kynnti sér þau mál síðast. Við þekkjum fleiri dæmi um slíka atvinnusköpun í héruðunum. Nefna má til dæmis öfluga verktaka í Skagafirði sem nú voru að ljúka við lagningu bundins slitlags á Þverárfjallsveginn, heilu ári á undan áætlun. Það er ástæða til hamingjuóska af slíku tilefni.

Framundan eru jarðgangaframkvæmdir til Bolungarvíkur. Við þær framkvæmdir munu ábyggilega starfa 50 til 100 manns, auk hinna afleiddu starfa. Ætli það muni ekki skipta máli þegar þungi minnkandi aflaheimilda gerir vart við sig á norðanverðum Vestfjörðum sem og víðar. Sama verður uppi á teningnum víðar um landið, þar sem vegagerð verður flýtt.

En hitt skiptir ekki síður máli að bættar samgöngur eru liður í því að styrkja innviði samfélags okkar. Góðir vegir skapa ný tækifæri í atvinnumálum. Eða halda menn til dæmis að bætt vegasamband við Snæfellsnes, svo dæmi sé tekið, hafi ekki átt þátt í því að skapa því landsvæði byggðalega viðspyrnu. Nú er einmitt framundan flýting á vegagerð um Fróðarheiðina, sem hefur verið áralangt baráttmál manna á utanverðu Nesinu. Íbúum Snæfellsness er vel ljós þýðing þess máls.

Við vitum að lélegir vegir eiga mikinn þátt í því að halda uppi flutningskostnaði. Flutningskostnaður til Ísafjarðar er sagður fjórðungi hærri vegna lélegra vega, en flutningskostnaður um sömu vegalengd á öflugum slitlögðum vegi.

Það er því einhver óskapleg meinloka þegar reynt er að gera lítið úr margra milljarða áformum ríkisvaldsins um flýtingu á vegagerð. Þvert á móti  hljótum við að fagna slíkri ákvörðun.

Það er því holur hljómur í málflutningi þeirra sem tala niður þýðingu vegagerðar út um landsins byggðir. Sveitarstjórnarmennirnir sem kallað hafa eftir aukinni vegagerð, alþingismennirnir sem lagt hafa áherslu á hið sama og almenningur sem krafist hefur vegabóta, hafa haft á réttu að standa. Úrtölumennirnir sem reyna núna að slá pólitískar keilur og keilur af öðrum toga, með öfugmælatali sínu varðandi vegagerð í landinu ,eiga það eitt skilið að við svörum þeim fullum hálsi. Og almenningur á að bregðast hart við þegar slíkur málflutningur er hafður í frammi. Við eigum ekki að láta það líðast að reynt sé að gera lítið úr sanngjörnum framfaramálum sem fólk hefur lengi kallað eftir.

 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband