Skilað auðu - að mestu

Afla landaðÞví miður voru viðbrögð stjórnarandstöðunnar við mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar óskaplega fyrirsjáanleg. Hefðbundin gagnrýni án nokkurra tillagna. Við þessu mátti svo sem búast, en innst inni var samt til vonarneisti um að í þetta skipti tækju menn hlutverk sitt dálítið hátíðlegar. Málið er af þeirri stærðargráðu að gera má þær kröfur til alvöru stjórnarandstöðu að hún hafi hugmyndir um aðrar leiðir. Svo er því miður ekki.

Menn tala meira að segja út og suður. Einn þingmanna Frjálslyndra finnur að því að of miklu fjármagni sé varið til þessara aðgerða. En almennt er tónninn sá að meira vanti hér og þar. Það er líka fyrirsjáanlegt.

Hitt er öllu lakara að ekki bólar á því að menn leggi til hugmyndir í hvað fjármunirnir eigi að fara. Helst er á að skilja að leggja hefði átt fjármuni með beinum hætti til fyrirtækjanna, í formi ríkisstyrks. Er það þó í algjörri andstöðu við forsvarsmenn útgerðanna sem hafa þvert á móti talað gegn slíkum hugmyndum.

Öllum öðrum hugmyndum um ný atvinnutækifæri sem ákveðnar eru í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar er síðan mætt með tortryggni og hæðni. Er þó ljóst að atvinnutækifærum fækkar í fiskvinnslu og sjómennsku. Einnig vegna þess að tæknibreytingar leiða til færri starfa. Þess vegna er ennþá dapurlegra að verða vitni að því þegar reynt er að gera lítið úr hugmyndum um ný atvinnutækifæri. Á sama tíma er kallað eftir aukinni fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni, kallað efrtir frekari möguleikum á menntun, kallað eftir uppbyggingu fjarskipta og samgangna. Því vekja viðbrögð stjórnandstöðunnar undrun.

Formaður Framsóknarflokksins Guðni Ágústsson, markaði þó afdráttarlausa stefnu að einu leyti og því ber að fagna. Hann hvatti í raun til þess að stjórnvöld lýstu því skýrt yfir að veiðirétturinn yrði hjá útgerðinni og að þeir sem nú tækju á sig skerðinguna nytu batans þegar þorskstofninn braggaðist. Þetta er gott að heyra. Hann þarf þó ekki að brýna okkur í þessum efnum. Sjálfur hef ég marglýst þessu yfir, til dæmis eftir að skýrsla Hafró kom út í júníbyrjun, en einnig þegar afstaða stjórnvalda um heildaraflamark lá fyrir. Forsætisráðherra hefur einnig talað mjög afdráttarlaust í þessum efnum á nákvæmlega sama hátt og ég.

Orð Guðna verðum við því að skoða sem ádrepu í garð forystumanns Framsóknarflokksins í Reykjavík, Björns Inga Hrafnssonar, sem talað hefur um að aflahlutdeildinni verði að skipta öðruvísi og koma í veg fyrir að þeir sem nú taka á sig skellinn njóti ábatans af auknum veiðiheimildum. Þess vegna skiptir máli að Guðni hefur talað. Orð formanns Framsóknarflokksins hafa vægi og hljóta að endurspegla afstöðu flokks hans. Því ber að líta svo á að orð Björns Inga hafi verið léttvæg fundin á mælikvarða formanns flokksins. Þá vitum við það að minnsta kosti.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband